Ekki hafi verið við ferðamennina að sakast

Um það bil 30 metrar voru milli björgunarsveitamanna og bílanna …
Um það bil 30 metrar voru milli björgunarsveitamanna og bílanna þar sem þeir sátu fastir í ánni. Ljósmynd/Lögreglan

„Þetta voru sex bílar í hóp og fimm bílar voru komnir yfir þegar síðasti bíllinn festi sig. Þá fór einn af bílunum fimm aftur út í og ætlaði að aðstoða en festi sig líka,“ segir varðstjóri lögreglunnar á Húsavík um aðdraganda aðgerðanna í Flæðum norðan Vatnajökuls í gær þegar bjarga þurfti þremur mönnum af þökum jeppa með þyrlu.

Björgunarsveitarmenn treystu sér ekki til að bjarga þeim þar sem það voru hátt í 30 metrar í bílanna þar sem þeir sátu fastir í ánni. Var því kallað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar sem kom og hífði ferðamennina upp.

„Þetta er í raun og veru ekki beint á heldur er þetta kallað Flæðurnar og kemur undan jöklinum og hrauninu. Öllu jafna er þetta vel greiðfært en þetta er svo fljótt að breytast,“ bætir hann við.

Voru öruggir á þökum bílanna

Hann segir ekkert við ferðamennina að sakast því þeir hafi í raun gert allt rétt. Þeir hafi verið að fylgja merktum vegslóða þegar þeir fóru yfir Flæðurnar. „Þetta er bara varhugavert svæði eins og hálendið er.“

Engin gríðarleg hætta var á ferðum þar sem bílarnir voru ekki að hreyfast neitt til en það var nokkuð straumþungt og það hefði verið varhugavert ef þeir hefðu lent úti í ánni. Fólkið beið á þökum bílanna í um það bil tvo klukkutíma.

Flæðurnar hafa verið ófærar með öllu

„Flæðurnar hafa í gegnum tíðina verið taldar mjög krefjandi, jafnvel fyrir reyndustu jeppamenn. Staðan undanfarið hefur hins vegar verið þannig að Flæður eru með öllu ófærar, jafnvel eldsnemma morgun, sem oft hefur verið treyst á,“ að sögn Jóhönnu Katrínar Þórhallsdóttur, þjóðgarðsvarðar hjá Vatnajökulsþjóðgarði. 

„Jafnvel þó að bílarnir hafi verið á ferð snemma dags, var þar mikið vatn líkt og verið hefur undanfarnar vikur og sandbleyta eftir því. Miðað við þær aðstæður, sé í raun magnað að stærstur hluti hópsins skyldi ná yfir, en að vera í fari hvers annars hafi orðið þeim síðasta að falli.“

Í samtali við mbl.is segir Jóhanna að landverðir hafi lagt sig mikið fram við að koma viðeigandi skilaboðum til áleiðis til ferðamanna og að vegurinn sem um ræðir hafi verið merktur sem ófær. 

Fréttin var uppfærð klukkan 17:04.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert