Tekinn á 176 km hraða á Suðurlandi

Annars segir lögregla að það hafi verið nokkuð rólegt í …
Annars segir lögregla að það hafi verið nokkuð rólegt í umdæminu undanfarinn sólarhring og að skemmtanahald hafi farið vel fram. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurlandi hefur síðasta sólarhringinn kært 20 ökumenn fyrir of hraðan akstur, en margir eru nú á ferðalagi í umdæminu um verslunarmannahelgi.

Einn ökumaður var tekinn á 176 kílómetra hraða á klukkustund og missti bílprófið á staðnum, en það var einungis nokkurra daga gamalt og má því gera ráð fyrir því að um ungan ökumann hafi verið að ræða.

„Lögregla mun halda uppi öflugu eftirliti næstu daga. Ökumenn mega búast við að lögregla setji upp eftirlitsstöðvar á völdum staðsetningum þar sem kannað verður með ástand ökutækja sem og ástand og réttindi ökumanna. Lögregla verður einnig með óeinkennisklædda lögreglumenn á ferð um umdæmið,“ segir í færslu lögreglu á Facebook, en þar er einnig áréttað það sem allir ættu að vita að akstur fer ekki saman við áfengi né önnur vímuefni og ökumenn ættu ekki að vera undir stýri nema allsgáðir og úthvíldir.

Annars segir lögregla að það hafi verið nokkuð rólegt í umdæminu undanfarinn sólarhring og að skemmtanahald hafi farið vel fram. Fá útköll voru vegna vímuástands eða óspekta, en einn gisti þó í fangageymslu á Selfossi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert