Síðasta hræið urðað í fjörunni í Garði

Margir virtu hvalshræin fyrir sér á laugardag, er útsendari mbl.is …
Margir virtu hvalshræin fyrir sér á laugardag, er útsendari mbl.is leit við í fjörunni. Nú eru öll hræin á bak og burt. mbl.is/Alfons

Fjaran neðan við Útskálakirkju í Garði í Suðurnesjabæ er nú laus við öll hvalshræ, en síðasta hræið var urðað í fjörunni fyrr í dag. Bergný Jóna Sævarsdóttir, staðgengill bæjarstjóra í Suðurnesjabæ, segir að björgunarsveitarfólk eigi hrós skilið fyrir störf sín um helgina.

„Það hefur mikið mætt á sama fólkinu,“ segir Bergný Jóna, en margir bæjarbúar og björgunarsveitarmenn þar á meðal eru í burtu yfir helgina, þessa mestu ferðahelgi ársins.

Um það bil 50-60 dýr óðu upp í fjöruna á föstudagskvöld og tókst björgunarsveitarfólki með samstilltu átaki að koma um það bil 30 dýrum lifandi aftur til hafs á laugardagsmorgun, en dýrunum var haldið blautum þar sem þau lágu í fjörunni aðfaranótt laugardags.

Eftir voru þó um 20 hræ og ljóst að eitthvað þyrfti að gera í þeirri stöðu. Björgunarsveitarmenn unnu við það á laugardagskvöld og í gærkvöldi að draga hræin frá landi og sökkva þeim í hafið, en tekin var ákvörðun um að síðasta hræið yrði urðað.

Bergný Jóna segist vonast til þess að ekki verði um frekari hvalreka að ræða á fjörurnar í Suðurnesjabæ á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert