Umhverfi dýranna hafi mengað ísinn

Fyrir liggur að ekki var e.coli af sermisgerðinni sem sýkti …
Fyrir liggur að ekki var e.coli af sermisgerðinni sem sýkti gestina að finna í sýnum af ísnum sjálfum. mbl.is/​Hari

Allir sem veiktust af e.coli í Efstadal II áttu það sameiginlegt að hafa borðað þar ís. Það bendir til þess að sá ís hafi mengast frá umhverfi eða starfsfólki, því ekkert E.coli fannst í eiginlegum sýnum úr ísnum sjálfum. Samkvæmt tilkynningu frá Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, fannst aðeins E.coli í einu sýni af ís, en það var ekki af þeirri gerð sem sýkingin var af, sermisgerð O026.

Við rannsókn á tildrögum þess að níu börn smituðust af E.coli eftir heimsókn í Efstadal II í júní og júlí, og annað barn að auki sem smitaðist af systkini sínu, hafa verið tekin 66 sýni í Efstadal II. 41 þeirra voru af matvælum og umhverfi í ísgerð og íssölu og 25 þeirra úr dýrum og umhverfi þeirra. Enn er ekki ljóst hvernig smit frá dýrum barst í þá sem veiktust.

Enginn hefur greinst af E.coli á Íslandi frá 18. júlí en lokað var fyrir matsölu í Efstadal 4. júlí þegar staðfest var að smitið væri að rekja þangað. 

Við sýnatökuna á Efstadal, sem staðið hefur yfir frá því að grunur fór að leika á að smitið lægi þar á bæ, hefur hvergi annars staðar fundist E.coli, af þeirri gerð sem fólk sýktist af (O026), en í dýrum og umhverfi þeirra á bænum. Af þeirri staðreynd má draga þá ályktun að smitið hafi ekki legið í matvörunni sjálfri eða framleiðslu hennar, heldur með einhverjum hætti „mengast“ í matinn.

Sýnin sem voru tekin

HSL, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, tók 12 sýni af ís, 11 sýni af kúluís og eitt sýni af ís úr ísvél. Ísinn var framleiddur dagana 12. júní, 26. júní, 28. júní og 4. júlí. Í einu sýni af kúluísfrá 4. júlí greindist STEC en þó ekki af sermisgerðinni O026.Önnur sýni voru neikvæð með tilliti til STEC. Sýnatökur fóru fram dagana 26. júní, 4. júlí, 11. júlí og 15. júlí.

Þann 4. júlí tók HSL sýni af fetaosti og skyri sem framleitt var í Efstadal II og greindist STEC ekki í sýnunum. Einnig voru tekin 4 sýni af neysluvatni í Efstadal II og sumarhúsabyggð í nágrenni Efstadals. Öll vatnsýnin uppfylltu kröfur um neysluvatn og neikvæð með tilliti til STEC. 

Þann 11. júlí tók HSL 11 stroksýni af umhverfií ísgerð og íssölu. STEC greindist ekki í sýnunum. 

Þann 18. júlí tók HSL 3 sýni, eitt af kúluís frá Kjörís sem var til sölu í Efstadal II frá 5. júlí - 18. júlí, eitt af flugum í flugugildru í íssölunni og eitt sýni af brauðformum. Öll sýni voru neikvæð með tilliti til STEC. 

Efstidalur II framleiddi ís til prufu 6. og 7. júlí og voru 8 íssýni send til rannsóknar. STEC greindist ekki í sýnunum. Ísinn fór þó ekki í sölu. Einnig var eitt sýni af hrámjólksent til rannsóknar og reyndist einnig neikvætt með tilliti til STEC. 

Þann 4. júlí tók Matvælastofnun sýni frá dýrum í Efstadal II. Tekin voru 3 safnsýni af saur, úr fjósi, kálfastíu og innan girðingar þar sem lömb og grís voru. Í sýni úr kálfastíu greindist E. coli O026. Raðgreining á erfðaefni sýndi aðsami stofn af E. coli O026 greindist í sjúklingum. 

Þann 22. júlí tók Matvælastofnun 22 sýni frá dýrum og umhverfi í Efstadal II og af öðrum bæ sem hafði selt kálfa til Efstadals II. Í 21 sýni fundust STEC og í sjö sýnum af þeim fannst erfðaefni O026, þar af fjögur frá Efstadal II. Það tókst að einangra E. coli O026 í tveimur sýnum af sjö. Þau sýni voru tekin úr nautahúsi að Efstadal II.

Síðar verður gerð raðgreining á erfðaefni bakteríunnar og kemur þá í ljós hvort um sé að ræða sama stofn og greindist í kálfum og börnum. Ekki tókst að rækta upp E. coli O026 á bænum sem seldi Efstadal II kálfana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert