Fyrsti gesturinn mætti fyrir viku

Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla. Frá hægri: Símon Ellertsson, Jón Arnar Sverrisson, …
Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla. Frá hægri: Símon Ellertsson, Jón Arnar Sverrisson, Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, Telma Ýr Óskarsdóttir og Hulda Karen Pétursdóttir. Ljósmynd/Haukur Snorrason

Þrátt fyrir að opinber dagskrá Fiskidagsins mikla hafi byrjað í gær og enn séu nokkrir dagar í stærstu viðburðina komu fyrstu gestir til Dalvíkur vel fyrir verslunarmannahelgi.

Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir að það aukist með hverju árinu að fólk mæti fyrr í bæinn til að næla sér í ákveðin stæði og er fólk nú þegar byrjað að streyma í bæinn. Í þetta sinn var fyrsti gesturinn mættur á tjaldstæðið á þriðjudaginn fyrir verslunarmannahelgi, klár í bátana.

Júlíus segir undirbúning í fullum gangi fyrir hátíðina. Fólk er duglegt við að skreyta og gera fínt. „Þetta er það sem við köllum fiskidagsaðventu og er einn af þessum skemmtilegu punktum,“ segir hann.

Tugir sjálfboðaliða hafa verið að störfum og þegar sjálfur Fiskidagurinn gengur í garð á laugardaginn hafa yfir 300 sjálfboðaliðar sinnt hinum ýmsu störfum, bæði Dalvíkingar og gestir héðan og þaðan sem höfðu áður engin tengsl við byggðarlagið.

Engar áhyggjur af veðrinu 

Miðað við veðurspána er útlit fyrir fremur svalt veður og jafnvel rigningu en Júlíus er hvergi banginn. „Þetta köllum við bara veðurspá. Svo sjáum við til hvernig veðrið verður. Við búum á Íslandi þar sem allir eiga indælis lopapeysu,“ segir hann hress.

Í fyrra mættu yfir 30 þúsund manns á Fiskidaginn mikla, sem er einn mesti fjöldinn frá upphafi og voru gestirnir mun fleiri en árið áður. Júlíus segir veðurspána vissulega hafa áhrif á mætinguna á hverju ári en nefnir að sumir sem hafa sleppt því að mæta vegna veðurs hafi séð eftir því þegar sólin hefur komið upp á Fiskidaginn.

Strendurnar hreinsaðar 

Hátíðinni lýkur sem fyrr með pompi og prakt á hafnarsvæðinu með stórtónleikum þar sem flytjendur á borð við Pál Óskar, Svölu, Valdimar og Siggu Beinteins, ásamt Friðriki Ómari og félögum halda uppi stemningunni. Að sögn Júlíusar voru 22 starfsmenn frá fyrirtækinu Exton mættir í gærmorgun til að undirbúa tónleikana, þar sem öllu verður að sjálfsögðu tjaldað til.

Ein nýjung á hátíðinni í ár er hreinsunarverkefni á stór-Eyjafjarðarsvæðinu þar sem rusl verður fjarlægt. Gestir og heimamenn geta skráð sig til þátttöku og verður bæði farið á bátum og gengið um strendurnar. Afraksturinn verður sýndur á Fiskideginum og er ætlunin að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert