Árskógar ekki ástæða til endurskoðunar

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Pírata.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Hari

Ekki er ástæða til að breyta fyrirkomulagi úthlutunar lóða og samningum Reykjavíkurborgar að sögn Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, formmanns skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, í kjölfar þess að deilur hafa risið um íbúðir Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni við Árskóga 1-3. Hún segir málið undantekningartilvik og að borgin standi að fjölda úthlutana lóða, bæði til óhagnaðardrifinna félaga og til sölu á almennum markaði, en Reykjavíkurborg úthlutaði FEB lóðina við Árskóga 1-3.

Deilurnar varða hærri greiðslu sem krafist er af þeim félagsmönnum FEB sem íbúðir keyptu. Sumir þeirra hafa samþykkt að greiða um 5-7 milljónum króna hærra verð en kaupsamningur kvað á um. Aðrir skoða réttarstöðu sína.  „Árskógamálið kom ekkert inn á okkar borð eftir að lóðinni var úthlutað,“ segir Sigurborg Ósk. „Mál sem varða sölu íbúða eru ekki á okkar borði að öðru leyti,“ segir hún

Íbúðir í fjölbýlishúsunum tveimur eru 68 talsins, en þau standa …
Íbúðir í fjölbýlishúsunum tveimur eru 68 talsins, en þau standa við Árskóga 1-3. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta mál er undantekningartilvik. Við úthlutum lóðum sem seldar eru bæði á almennum markaði og svo til óhagnaðardrifinna verkefna. Þetta er bara eitt margra uppbyggingarverkefna í borginni,“ segir hún og kveðst ekki vita til þess að í fleiri tilfellum hafi eitthvað á borð við þetta komið upp.

„Ekkert þessu líkt. Ég held þetta sé dálítið einstakt tilvik,“ segir Sigurborg Ósk. „Ég held þetta sé eitthvað sem félagið sjálft finnur út úr. Við skiptum okkur ekki af því,“ segir hún.

Ekki ástæða til breytinga hjá borginni

Spurð hvort ástæða sé fyrir borgina til þess að tryggja að betur sé að málum staðið „á hinum endanum,“ í ljósi þess að borgin úthluti sumum lóðum til tiltekinna hópa samfélagsins á borð við eldri borgara og á grundvelli velferðarsjónarmiða, kveðst hún ekki sjá ástæðu til þess í ljósi þess að um undantekningartilvik sé að ræða.

„Við höfum ekki séð ástæðu til að breyta okkar úthlutunum og samningum. Við höfum úthlutað til óhagnaðardrifinna félaga eins og Félags eldri borgara, en einnig Samtaka aldraðra og fleiri. Þetta eru mörg húsnæðisúrræði og við leggjum áfram áherslu á fjölbreytileikann. Vinnum með ólíkum félögum og byggja fleiri hjúkrunarrými og íbúðir á almennum markaði sem sumir kjósa að kaupa sér,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert