„Myndi kosta sveitarfélögin heilmikið“

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir tímabært að fá úr því …
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir tímabært að fá úr því skorið hvort sveitarfélögin hafi skuldbundið sig til þess að jafna lífeyrisréttindi starfsmanna. mbl.is/Hari

„Það hefur verið mjög hörð deila um þetta og við erum að reyna að fá úr þessu skorið,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), í samtali við mbl.is um ákvörðun formannafundar félagsins um að stefna Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir félagsdómi vegna meintra vanefnda er tengist jöfnun lífeyrisréttinda.

„Þetta myndi kosta sveitarfélögin heilmikið og myndi bæta lífeyrisréttindi allra þeirra sem voru í vinnu fyrir fyrsta júní 2017, sambærilegt og hjá öðrum sem vinna hjá sveitarfélögunum,“ segir Björn og bendir á að ríkið og Reykjavíkurborg hafa þegar gengist við breyttu lífeyriskerfi.

„Hin sveitarfélögin hafa ekki viljað gera þetta og segjast ekki hafa skuldbundið sig til þess að gera þetta og við erum að láta reyna á það.“

„Við erum búin að vera að deila um það við Samband íslenskra sveitarfélaga um það hvort að þeir hafi lofað því að jafna lífeyrisréttindi, þeir tóku eitt og hálft prósent í kauphækkun til þess að jafna lífeyrisréttindi bæði gagnvart opinberum starfsmönnum og gagnvart okkar starfsmönnum en hafa ekki staðið við það að jafna réttindin hjá okkur,“ útskýrir formaðurinn.

Hann segir vissulega geti farið svo að niðurstöðu félagsdóms geti verið SGS í óhag, en að tímabært sé að fá úr því skorið hvort loforðið hafi verið veitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert