Ótímabær umræða um afsagnir

Ellert B. Schram, formaður Félags eldri borgara.
Ellert B. Schram, formaður Félags eldri borgara. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ellert B. Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, segir ótímabært að ræða það hvort stjórnarmenn í félaginu segi af sér vegna deilna sem komnar eru upp um verð á nýjum íbúð félagsins í Árskógum í Breiðholti.

Söluverð eignanna var upphaflega um 460 þúsund krónur á fermetrann, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er hækkunin um og yfir 10%, og er hún rakinn til vanáætlaðs fjármagnskostnaðar vegna lengri framkvæmdatíma en upphaflega var talið. Afsökun sem síðar hefur verið hrakin enda tafðist framkvæmdin ekki nema um einn mánuð. 

Ellert segir gott fólk í stjórninni og að hún hafi hist reglulega síðustu daga til að leysa málið farsællega. Hann ítrekar að um sjálfboðavinnu sé að ræða. Stjórnarmenn þiggi ekki laun og félagið sé ekki rekið í hagnaðarskyni. Einu tekjur þess séu félagsgjöld upp á 4.500 krónur á félagsmann á ári.

Í samtali við Vísi í dag sagði Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður félagsins, að vel kæmi til greina að einhverjir segðu af sér vegna málsins en Ellert segir það ekki hafa komið til tals.

Blokkirnar litskrúðugu eru að Árskógum 1-3 í Breiðholti.
Blokkirnar litskrúðugu eru að Árskógum 1-3 í Breiðholti. mbl.is/Árni Sæberg

Neytendasamtökin vilja svör

Neytendasamtökin funduðu í dag með fulltrúum Félags eldri borgara í Reykjavík en fjórir kaupendur íbúða hafa leitað til samtakanna vegna málsins.Hafa þeir ýmist samþykkt að greiða skilmála FEB um að greiða hærra verð fyrir íbúðina, eða eru að skoða málið, en allir eiga þeir sammerkt að hafa farið í viðtal hjá FEB eftir að ljóst varð að verð íbúðanna myndi hækka. 

„Við áttum góðan fund þar sem fulltrúar FEB útskýrðu sína hlið. Við lögðum fyrir þau tíu spurningar sem við vorum með. Einhverju gátu þau svarað, en vildu fá tíma til að vinna í öðru og munu nota næstu daga til að fara yfir það,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem segir að spurningarnar varði margar hverjar skjólstæðinga félagsins beint og því ekki til opinberrar birtingar, 

„Við gefum þeim tóm til að svara, en vonumst til þess að fá skjót og góð svör. Ég veit að þau vinna að því að klára þetta mál fljótt og vel,“ segir hann.

Breki sagði fyrr í dag við mbl.is að málið væri allt hið skringilegasta. Hann segir að á fundinum hafi hann fengið einhver svör við spurningum sínum og býst við að fá fleiri á næstu dögum. „Ég vil hvorki bæta við né draga úr því sem mér fannst áður. Ég hef ekki alveg fengið að sjá heildarmyndina og þau viðurkenna sjálf að hafa hana. Það er jú innan við vika síðan þetta mál kom upp, en það er stórt og bið munum fylgja þessu mjög vel eftir með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi,” segir Breki.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert