„Gerðum mistök og biðjumst afsökunar“

30 þúsund manns sóttu tónleika Ed Sheeran í gærkvöldi. Skipuleggjendur …
30 þúsund manns sóttu tónleika Ed Sheeran í gærkvöldi. Skipuleggjendur segja tafir hafa verið þar ekki hafi verið gert ráð fyrir að svo margir myndu mæta á sma tíma. mbl.is/Þorsteinn

Nokkrir örðugleikar urðu þegar hleypt var inn á tónleika Eds Sheerans í gærkvöldi sem skapaði tafir. Barst aðstandendum tónleikanna fjöldi kvartana og hafa nokkrir tónleikagestir sem mbl.is hefur rætt við fullyrt að hætt hafi verið að leita í bakpokum og töskum gesta til þess að flýta röðinni.

„Það er bara ekki rétt að það hafi verið hætt einhverri öryggisleit,“ segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, í samtali við mbl.is. Spurður hvort einhverjar tilslakanir hafi verið gerðar á öryggisleit í gær segir hann svo ekki vera. „Nei. Ég veit ekki til þess. Það öryggisstarf sem átti að fara fram fór fram.“

„Við gerðum bara mistök og biðjumst afsökunar á því,“ svarar Ísleifur spurður um skipulag tónleikanna. „Að öðru leyti fór þetta vel fram en þetta þykir okkur miður. Þetta klikkaði aðeins og hlaupið í að laga það, sem betur fer tókst það. Það sem skipti máli var að allir komust inn áður en Ed Sheeran byrjaði.“

Sprenging að stíflu

„Það var kannski of langt gengið að láta þau fara eftir svokölluðum snák endalaust. Það var kannski of langt gengið en þetta var allt vel meint og snerist allt um að tryggja öryggi og koma í veg fyrir troðning,“ útskýrir Ísleifur um röðina.

Spurður hvort skipuleggjendur hafi verið undir það búnir að taka við þessum mikla fjölda fólks á tónleikana svarar hann: „Eitthvað er þarna misreiknað, það kemur þarna alveg gríðarlegur fjöldi á sama tíma. […] Það hafa náttúrlega aldrei verið 30 þúsund manna tónleikar á Íslandi.

Þetta var kannski líka það að við héldum að dreifingin yrði meiri. Það kemur þarna algjör sprengja og svo einhvern veginn verður bara stífla. Þegar við sjáum að hún er bara að versna og ekki að leysast úr henni er hlaupið í að laga þetta,“ bætir hann við.

Ísleifur B. Þórhallsson.
Ísleifur B. Þórhallsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breytt skipulag í kvöld

Ed Sheeran stígur aftur á svið í kvöld og er ekki uppselt á þá tónleika, þó er búist við um 20 þúsund gestum. „Það er heilmikill fjöldi, tveir þriðju af því sem var í gær,“ segir Ísleifur.

Hann segir jafnframt ekki líklegt að sömu vandamál verði í kvöld og voru í gær. „Skipulagið er breytt. Skipulagið sem var í gær verður farið í kvöld.“

„Rigndi yfir okkur kvörtunum“

Framkvæmdastjórinn segir talsverðan fjölda kvartana hafa borist skipuleggjendum þegar mestu örðugleikarnar voru, en þá náði röðin 1,5 kílómetra, að Glæsibæ.

„Eins og þetta er í dag eru allir sítengdir við samfélagsmiðla og meðan á vandamálinu stóð rigndi yfir okkur kvörtunum frá fólki. Við vorum bara á fullu að annars vegar svara fólkinu og hins vegar leysa vandamálið.

Við fórum í það að svara öllum persónulega sem stóðu í röðinni og voru að senda á okkur. Röðin var kláruð um hálfníu. Þá voru allir, eftir því sem ég best veit, voðalega glaðir. Þau voru mjög glöð að fá svör frá okkur,“ staðhæfir Ísleifur.

„Ég vona að fólk sé sátt þegar upp er staðið, en ég dreg ekkert úr því hvað það er súrt að lenda í svona röð og að það gangi svona hægt.“

Misskilningur um snemminnritun

„Það myndaðist líka svolítið löng röð á aðdáendasvæðinu til að fara í snemminnritun. Fólk taldi sig þurfa að fara í fleiri raðir. Það er eins og það hafi verið einhver útbreiddur misskilningur að það hafi verið skylda að fara í snemminnritun eða einhver annar ábati af því en við sögðum,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann segir enga kvöð hafa verið um að fara á aðdáendasvæðið og það „bara gert til gamans ef fólk vill mæta fyrr og slaka á saman og koma svo á völlinn. Það þarf enginn að fara í snemminnritun“.

Margir fóru í snemminnritun í Laugardalshöll í gær, án þess …
Margir fóru í snemminnritun í Laugardalshöll í gær, án þess að þörf væri á því. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir hann snemminnritun vera séríslenska þjónustu þar sem strangar miðareglur sem gilda um alla tónleika Sheerans gera það að verkum að eigendur miða sem keyptir eru á sama tíma þurfa allir að mæta á tónleikana saman. Er þetta gert til þess að sporna við miðabraski, að sögn Ísleifs.

„Þessi snemminnritun var búin til fyrir Íslendinga; ef það er óþægilegt fyrir þig að allir átta komi saman – ef þú keyptir átta miða – þá geturðu mætt í snemminnritun og hver farið sína leið. Þá geta menn mætt klukkan sjö, átta og níu og það mun ekki skipta neinu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert