Sheeran keypti úr Gæslunnar

Það fór vel á með Sheeran og úrsölunum.
Það fór vel á með Sheeran og úrsölunum. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran situr ekki auðum höndum milli tónleika. Til hans sást á Laugavegi í dag, en þar kom hann meðal annars við í úraversluninni JS Watch. Í samtali við mbl.is segir Grímkell Sigurþórsson úrsali að Sheeran hafi verið mjög vinalegur og alþýðlegur í fasi. „Það eru engir stjörnustælar í honum.“

Hann lét sér ekki nægja að kaupa eitt stykki heldur splæsti í fimm úr, þar af tvö dömuúr og tvö eintök af úrinu Sif, sem er sérstaklega framleitt fyrir Landhelgisgæsluna. Grímkell segir að Sheeran sé mikill úraáhugamaður og safnari, og svo virðist sem hann heimsæki ekki ný lönd án þess að verða sér úti um nokkra gripi í safnið.

Fimmta úrið sem Ed fékk var sérstakt úr sem JS Watch framleiddi fyrir íslenska landsliðið í tilefni af þátttöku liðsins á HM í Rússlandi í fyrra. Það úr fékk Ed að gjöf frá Senu, sem sér um tónleikana, ásamt árituðum landsliðsbúningi Íslands en um það hafði Ed Sheeran beðið áður en hann kom til landsins. Tróð hann einmitt upp í þeim búningi á fyrri tónleikum sínum í Laugardal í gær.

Seinni tónleikarnir verða svo í kvöld og viðbúið að hann stígi á svið um klukkan níu, sennilega í landsliðsbúningi og hugsanlega með eitt stykki JS Watch á úlnliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert