„Þess virði? Ekki séns“

Sheeran virtist allavega skemmta sér.
Sheeran virtist allavega skemmta sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er óþolandi að heyra talsmenn Senu tala um að það hafi verið einhver misskilningur hjá fólki sem varð til þess að allir fóru í snemminnritun,“ segir Sigurður Hilmar Guðjónsson, gestur á tónleikum Ed Sheeran í Laugardal í gær. Sá misskilningur skrifist alfarið á Senu.

Sigurður var á tónleikunum ásamt tveimur sonum sínum og móður. Líkt og fjölmargir tónleikagestir fór hann í svokallaða snemminnritun fyrr um daginn þar sem hann gat skipt pappírsmiðunum út fyrir armbönd. Til að hún myndi ganga þurfti allur hópurinn að mæta og sýna miða og skilríki. Biðin í þá innritun tók tvær klukkustundir en átti að einfalda þeim lífið um kvöldið. 

Sigurður segist hafa búist við að um kvöldið yrði þess vegna sérstök röð þar sem snemminnritaðir fengju forgang. „Ég hef verið mikið í ferðabransanum og farið á tugi flugvalla. Ef maður fer í „early check-in“ þá sleppur maður við að tékka sig inn í flugið síðar og fer beint í öryggisgæsluna.“ Til þess sé leikurinn gerður.

Í tölvupósti sem Sena sendi miðahöfum kemur skýrt fram að …
Í tölvupósti sem Sena sendi miðahöfum kemur skýrt fram að snemminnritunin eigi að spara tónleikagestum tíma og eru þeir hvattir til að nýta sér þann kost. Ljósmynd/Aðsend

Enginn forgangur var þó á vellinum fyrir snemminnritaða, sem fóru í sömu röð og aðrir en sluppu að vísu við að sýna skilríki. „Það skiptir mig engu máli hvort það tekur mig fimm sekúndur eða tuttugu að komast í gegnum öryggisleitina ef ég þarf hvort eð er að standa í sömu tveggja tíma röðinni,“ segir Sigurður.

Þessar raðir bætast við biðröðina í Kringlunni í síðustu viku þar sem Sigurður varð að fara að ná í pappírsmiðann.

Spurður út í öryggisleitina segir Sigurður að hún hafi verið í skötulíki. Öryggisvörður hafi einfaldlega spurt hann hvort hann hefði eitthvað í bakpoka sínum og þegar Sigurður svaraði neitandi hafi vörðurinn hleypt honum í gegn. Kemur það heim og saman við framburð annarra gesta sem mbl.is hefur rætt við, sem segja að slakað hafi verið á öryggisleitinni í því skyni að flýta fyrir röðinni. Þessu hafnaði Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri tónleikahaldarans Senu Live, þó í samtali við mbl.is í dag.

Enginn misskilningur

Þar sagði Ísleifur að mistök hefðu vissulega verið gerð við skipulagningu tónleikanna. Svo hefði þó virst sem „út­breidd­ur mis­skiln­ing­ur“ væri uppi meðal miðahafa um að skylda hefði verið að fara í snemm­inn­rit­un eða ein­hver sérstakur ábati af því, annar en greint hefði verið frá.

Sigurður segist ekki telja að margir hafi haldið það vera „skyldu“ að fara í snemminnritunina. Hins vegar hafi það komið skýrt fram í tölvupóstum og skilaboðum á vettvangi frá Senu að fólk væri hvatt til þess að snemminnrita sig um daginn, og því hafi hann fylgt.

Sigurður var mættur í biðröðina, þá þriðju, um klukkan fimm …
Sigurður var mættur í biðröðina, þá þriðju, um klukkan fimm og komst á völlinn klukkan sjö, í tæka tíð til að berja Zöru Larsson augum. Það er þó eitthvað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stendur enda í tölvupósti frá Senu að snemminnritunin sé fyrir þá sem vilji spara sér tíma. Eftir stóð að Sigurður beið í sömu tveggja tíma röð og allir aðrir, til viðbótar við álíka langa röð í snemminnritunina fyrr um daginn.

En var biðin þess virði?

„Þess virði? Ekki séns. Ekki fyrir 65.000 krónur,“ segir Sigurður sem keypti, sem fyrr segir, fjóra miða á tónleikana. „Ég mun aldrei fara aftur á tónleika hjá Senu.“

Hann segist ekki vera sérstakur Sheeran-aðdáandi, en hafi ákveðið að slá til og kaupa miða til að gleðja syni sína, sex og átta ára. Sá yngri sé sérstakur aðdáandi og þekki öll lög kappans. Eftir biðina löngu voru drengirnir orðnir ansi lúnir, og fór svo að þeir héldu af vellinum þegar Sheeran flutti „síðasta“ lagið, áður en hann var klappaður upp og spilaði nokkur aukalög. Þau hafi þeir heyrt útundan sér frá bílastæðinu.

„Við vorum búnir að bíða lengi í röð þrisvar sinnum, og vorum ekki beint í stuði fyrir þá fjórðu á leiðinni út.“

Tónleikum lokið og mannhafið á leið út í nóttina.
Tónleikum lokið og mannhafið á leið út í nóttina. mbl.is/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert