Ratcliffe fjármagnar laxarannsókn

Breski auðmaðurinn Sir Jim Ratcliffe fjármagnar nýja rannsóknar á laxastofninum á Norðausturlandi í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, en rannsóknin er hluti af fyrirætlunum hans um vernd Atlantshafslaxins. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í húsakynnum Hafrannsóknastofnunar síðdegis í dag, þar sem samningur var undirritaður.

Ratcliffe ver 80 milljónum króna í rannsóknina, sem unnin verður í samstarfi Hafrannsóknastofnunar og lífvísindadeild Imperial College. Tveir doktorsnemar, einn frá hvorri stofnun, mun vinna að verkefninu, sem mun standa yfir í 3-4 ár.

Rannsóknin nær til nýrra sviða vistfræði og hegðunar laxins, en doktorsnemarnir tveir munu framkvæma ítarlegar rannsóknir sem ná til núverandi stærðar stofna laxins, genakortlagningar og hátæknimerkinga fiska sem leiða á í ljós tengslin á milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra í árnar úr hafi. Lykilþættir rannsóknanna munu snúa að mati á því hversu gott aðgengi unglaxa er að æti því það hefur áhrif á lífvænleika þeirra í hafi og fjölda einstaklinga sem á endanum snúa aftur í árnar til hrygningar.

Breski auðmaðurinn Sir Jim Ratcliffe, hér við veiðar í Selá …
Breski auðmaðurinn Sir Jim Ratcliffe, hér við veiðar í Selá í Vopnafirði. mbl.is/Einar Falur

„Öll gögn benda til þess að nú sé fjöldi Norður-Atlantshafslaxins ekki nema fjórðungur af því sem hann var á árunum upp úr 1970. Flestar tegundir sem orðið hafa fyrir slíkri hnignun yrðu flokkaðar sem í útrýmingarhættu. Við erum því spennt að hefja það sem við teljum vera gríðarmikilvæga rannsóknaráætlun, því í henni eru sameinaðir kraftar Hafrannsóknastofnunar og Imperial College til að varpa ljósi á hvernig viðhalda megi og stækka laxastofna hér á Íslandi og gera Norðausturland að friðlandi fyrir Norður-Atlantshafslaxinn,“ er haft eftir Peter S. Williams, tæknistjóra og yfirmanns fjárfestinga hjá INEOS Group, í fréttatilkynningu um verkefnið, en INEOS er félag í eigu Ratcliffe.

Í samtali við mbl.is að fundi loknum sagði Williams að rannsóknarverkefnið hefði átt sér um það bil eins og hálfs árs aðdraganda og að hann vonaðist til þess að hægt yrði að nýta niðurstöður rannsóknarinnar til þess að móta aðgerðir til þess að hlúa að laxastofnum víðar en bara á Norðausturlandi.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðifélagsins Strengs í Vopnafirði, sagði á fundinum að heildarfjárfesting Ratcliffe í gegnum veiðifélagið gæti numið allt að 600 milljónum króna á næstu árum, en samfara rannsókninni eru þrjú verkefni komin af stað hjá félaginu, meðal annars við að grafa frjóvguð egg, byggja laxastiga og gróðursetja tré og plöntur nærri ánum.

„Það er fæðuskortur í ánum og ein leið til að auka fæðuna er að planta trjám og gróðri,“ sagði Gísli meðal annars.

Myndskeiðið hér að ofan var sýnt á blaðamannafundinum í dag, en þar ræða Ratcliffe og sérfræðingar á hans vegum, auk Gísla, um laxastofninn á Norðausturlandi og framkvæmdir sem þar eru farnar af stað við byggingu laxastiga.

Attachment: "Six Rivers Project" nr. 11194

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert