Miklir hagsmunir í húfi við Hverfisgötu

Ísak er með skrifstofuaðstöðu í svarta húsinu til vinstri og …
Ísak er með skrifstofuaðstöðu í svarta húsinu til vinstri og er að leika í óperu í leikhúsinu til hægri. Hann telur að vel hefði mátt klára framkvæmdirnar fyrr. mbl.is/Snorri

„Það er virkilega gaman að sjá úrbæturnar sem hafa verið gerðar á Hverfisgötunni, hvernig hún hefur lifnað við. Ég er mjög ánægður með þessar framkvæmdir en að þær skuli dragast fram yfir opnun leikhússins í haust er mér virkilegt áhyggjuefni. Það hafa orðið einhver mistök hérna,“ segir Ísak Hinriksson, ungur kvikmyndagerðarmaður sem hefur skrifstofuaðstöðu í svarta húsinu á móti Þjóðleikhúsinu, við Hverfisgötu 18. 

Ekki aðeins hefur hann þeirra skrifstofulegu hagsmuna að gæta heldur er hann leikari í Brúðkaupi Fígarós, óperunni sem opnar leikhúsveturinn 7. september í Þjóðleikhúsinu. „Það verður ekki glæst aðkoman þegar þau koma í pelsunum að sjá óperuna í haust, að þurfa að dröslast hérna á framkvæmdasvæðinu til að komast í leikhúsið,“ segir Ísak.

Hverfisgata 18. Þar var Bar 11 til húsa á neðstu …
Hverfisgata 18. Þar var Bar 11 til húsa á neðstu hæð en á efri hæð hafa þar nokkrir listamenn skrifstofuaðstöðu. mbl.is/Snorri

Hann rakst á Ara Matthíasson þjóðleikhússtjóra á Hverfisgötunni í dag. „Hann var að lýsa fyrir mér áhyggjunum sem hann hefur yfir þessu. Hann var ekkert látinn vita og var að tala um að þetta yrði ekki nógu gott á frumsýningardaginn,“ segir Ísak. „Ari Matthíasson sumarlegur en þungur á brún,“ segir Ísak, „sorgleg sjón.“

Hávaðinn mikill og hagsmunirnir líka

Ísak skilur þess vegna áhyggjur verslunareigenda í götunni og óánægju þeirra með framkvæmdirnar. „Þetta eru klárlega framkvæmdir sem hefði mátt klára mun fyrr. Hér var ekki unnið um tveggja vikna skeið, ég man eftir því, það var bara enginn hérna. Síðan segja þeir að verklokum seinki núna,“ segir hann. „Það þarf bara að drífa í þessu!“

„Ég hef mikla hagsmuni af því að gatan verði tilbúin. Það verður mjög fallegt þegar hægt verður að ganga og hjóla upp og niður nýja Hverfisgötu, þó að helst myndi ég náttúrulega vilja fá leikhústorg fyrir utan leikhúsið og loka þar fyrir bílaumferð, eins og Guðjón Samúelsson lagði reyndar upp með,“ segir Ísak. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði Þjóðleikhúsið.

Hávaðinn er mikill við götuna. Borar, framkvæmdir, hamarshögg, vélahljóð, áreiti. „Ég sjálfur get bara sett á mig heyrnartól eða reynt að vinna á kvöldin en ég leigi hérna skrifstofu með til dæmis rithöfundi, Dóra DNA. Hann hefur kannski liðið meira fyrir þetta en ég,“ segir Ísak en einnig leigir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri skrifborð í rýminu.

„En það er fallegt haust í vændum hérna á Hverfisgötunni, mjög fallegt,“ segir Ísak.

Ísak hefur fylgst náið með framkvæmdunum frá skrifstofunni, þær hafa …
Ísak hefur fylgst náið með framkvæmdunum frá skrifstofunni, þær hafa ekki truflað hann sjálfan mikið, sennilega mun minna en þær munu hafa truflað Dóra DNA rithöfund, sem er með skrifstofu á sama stað. mbl.is/Snorri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert