Samstarfssveitarfélög taki næsta skref

Sigurður Ingi segir hugmyndina að setja sólarlagsákvæði í sveitarstjórnarlög árið …
Sigurður Ingi segir hugmyndina að setja sólarlagsákvæði í sveitarstjórnarlög árið 2026. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum með býsna mikinn fjölbreytileika, mörg smá sveitarfélög og ótal samstarfsvettvangs sveitarfélaga til þess að þau geti náð lögbundnum markmiðum sínum. Þess vegna er áhersla lögð á að búa til fjárhagslegan hvata til þess að sveitarfélög sem hafa með sér mjög mikið samstarf geti tekið næsta skref og búið til nýtt, öflugt sveitarfélag til framtíðar.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um þingsályktunartillögu um áætlun um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga.

Samkvæmt áætluninni verður lágmarksíbúatala sveitarfélaga 250 frá árinu 2022 og 1.000 frá árinu 2026. En Sigurður Ingi segir ekki einungis verið að leggja áherslu á íbúatölu.

„Þetta er stefnumótun ríkisins, sú fyrsta, í málefnum sveitarfélaga. Hún var unnin í mjög nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu og byggð á skýrslum undanfarinnar ára um eflingu sveitarstjórnarstigsins og nauðsynlegar breytingar á jöfnunarsjóði.“

Sigurður Ingi segir þingsályktunina taka á mörgum þáttum og að það sé mat margra, ekki síst á sveitarstjórnarstiginu sjálfu, að það sé nauðsynlegt að skilgreina hvað sveitarfélag þurfi að vera stórt eða öflugt til að ná að sinna öllum sínum lögbundnu verkefnum.

Nauðsynlegt til að takast á við verkefni framtíðarinnar

Hugmyndin sé sú að setja sólarlagsákvæði í sveitarstjórnarlög árið 2026. „Það eru auðvitað þónokkur ár í það og það er mikill umræðugrunnur víða í gangi um sameiningu sveitarfélaga og ástæðan er einfaldlega sú að það eru mjög margir sem telja að það sé nauðsynlegt til að takast á við verkefni framtíðarinnar.“

Sigurður Ingi útilokar ekki að sveitarfélögum sem nái ekki alveg 1.000 íbúa markinu verði gefið einhvers konar svigrúm. Það geti t.d. komið til greina af landfræðilegum ástæðum. „Þetta er sett fram sem viðmið eftir mikla vinnu þar sem sveitarstjórnarstigið hefur í raun verið aðalleikarinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert