Selskælingar nema í Fellaseli

Unnið er að viðgerðum á Seljaskóla eftir eldsvoðann sem varð …
Unnið er að viðgerðum á Seljaskóla eftir eldsvoðann sem varð í maí. mbl.is/Hari

Rúmlega 140 nemendur í 6. og 7. bekk Seljaskóla sækja nám í húsnæði Fellaskóla fram yfir áramót vegna bruna sem varð í Seljaskóla í vor. Altjón varð á húsi fjögur þar sem kennsla þessara bekkja fór fram. Unnið er að því að endurbyggja það og áætlað að því ljúki upp úr áramótum og þá geta nemendur og kennarar snúið aftur til starfa í Seljaskóla.  

Bekkirnir eru sex og kennararnir sjö talsins auk stuðningsfulltrúa og einnig verður einn stjórnandi á staðnum. Kennt verður í einni álmu skólans sem nefnd hefur verið Fellasel. „Fellasel verður eins og lítill skóli. Við erum sammála um að þetta sé besta lausnin í stöðunni. Við erum í góðri samvinnu við starfsfólk Fellaskóla. Búið er að stilla saman stundatöflurnar, nemendur Fellasels eru saman í frímínútum og fá þá skólalóðina og fótbolta- og körfuboltavelli til afnota,“ segir Bára Birgisdóttir, aðstoðarskólastjóri Seljaskóla. Hún tekur fram að undirbúningurinn hafi gengið vel og að Reykjavíkurborg hafi staðið sig vel í að undirbúa rýmið í Fellaskóla fyrir nemendurna.   

Rúta sækir nemendur og kennara að morgni í Seljaskóla og kemur aftur kl. 12:20 svo nemendur geti borðað hádegismat þar og lokið skóladeginum. Eftir hádegi fer fram kennsla í verk- og listgreinum auk íþrótta. 

Framkvæmdir hafa gengið vel, að sögn Báru. Teikna þurfti upp bygginguna að nýju og verða gerðar breytingar í samræmi við nýjar reglugerðir en skólabyggingin er 40 ára gömul. Til að mynda verður aðgengi fyrir fatlaða samkvæmt nýjustu reglugerðum, salernin verða lokuð þ.e.a.s. ekki básar, settur verður upp glerveggur til að leyfa birtunni að flæða betur um rýmið svo fátt eitt sé nefnt.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert