Hyggst kæra ólögmæta handtöku

Elínborg Harpa með grímuna sem henni var meinað að bera.
Elínborg Harpa með grímuna sem henni var meinað að bera. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er hissa á lygunum sem lögreglan lætur frá sér og mér finnst mjög sárt að vera handtekinn fyrir það hver ég er en ekki fyrir eitthvað sem ég gerði. Ég hélt að slík vinnubrögð liðust ekki,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir, sem var handtekinn fyrir meint mótmæli í miðri Gleðigöngu Hinsegin daga fyrr í dag. Hún segir útskýringar lögreglunnar á handtökunni „algjört bull.“

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að hún hefði verið handtekin fyrir að mótmæla Gleðigöngunni og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði í samtali við mbl.is að hún hefði neitað að segja til nafns og því verið færð á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Síðar bárust fréttastofu þær heimildir að hún hefði í raun verið að mótmæla þátttöku lögreglunnar í Gleðigöngunni en þær heimildir reyndust ekki réttar að sögn Elínborgar.

Engin mótmæli fyrirhuguð í dag

Hún segir þó að vissulega hafi á einum tímapunkti staðið til að mótmæla þátttöku lögreglunnar í göngunni en eftir samningaviðræður við skipuleggjendur og lögreglu var hætt við þau mótmæli. Hún kveðst hins vegar ekki hafa komið að þeim fyriráætlunum og að lögregluyfirvöld hafi vitað að hætt hefði verið við fyrirhuguð mótmæli.

Aðdragandi handtöku Elínborgar var sá að hún var að flýta sér niður Skólavörðustíginn til að hitta vini sína sem voru í Bankastræti. Gleðigangan var byrjuð og vildi hún vera með vinum sínum þegar hún færi niður Bankastrætið.

„En við gatnamót Skólavörðustígsins og Bankastrætis var búið að setja upp járngirðingar. Ég var að flýta mér og tók ekki eftir þeim og geng beint í flasið á þremur lögreglumönnum. Þeir segja mér að ég megi ekki fara þarna yfir,“ útskýrir Elínborg.

„Það er alltaf vesen á þér“

Hún segist hafa spurt lögreglumennina hvort hún mætti ekki færa sig framhjá girðingunni og komast inn á löglega svæðið sem var tvo metra í burtu. Þá þegar voru lögreglumenn búnir að grípa í báðar hendurnar á henni og segja „við vitum hver þú ert, það er alltaf vesen á þér og þú ert ekkert að fara mótmæla neitt í dag.“

Elínborg var með sár og mar á úlnliðum og enni …
Elínborg var með sár og mar á úlnliðum og enni eftir handtökuna í dag. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Elínborgar reyndi hún að útskýra fyrir lögregluþjónunum að hún væri ekki að fara mótmæla heldur einungis að reyna komast til vina sinna. Þeir hafi þá beðið hana um að fjarlægja grímu sem huldi hálft andlit hennar. Henni hafi þótt það skrýtið enda margir með grímu og andlitsmálningu við þetta tilefni.

„Ég spyr hvort þá hvort það eigi að stoppa alla einstaklinga sem séu með grímu eða málað andlit. Þá spyrja þeir mig hvort ég ætli ekki að fylgja fyrirmælum lögreglu og í framhaldinu rétti ég þeim grímuna,“ segir hún og bætir við:

„Þá er ég beðin um skilríki en ég segist ekki geta afhent skilríki þegar það er haldið í báðar hendurnar á mér því þau voru í töskunni minni. Þá sleppir annar þeirra og ég næ í skilríkin.“

„Kjaftæði“ að hún hafi neitað að segja til nafns

Hún segir að hún hafi afhent debetkortið sitt sem hafi gengið milli allra þriggja lögreglumannanna. Þeir hafi í framhaldinu beðið hana um að koma til hliðar en það hafi hún ekki viljað því hún vildi að fólk yrði vitni að atvikinu. Þeir tóku hana samt sem áður til hliðar og þá fór Elínborg á hnén til að fólk sæi að hún væri ekki að gera neitt ólöglegt.

„Þeir standa í kringum mig með kortið mitt, sem þeir eru ennþá með og hafa ekki skilað, og þetta gerist allt á staðnum. Að ég hafi ekki sagt til nafns er bara kjaftæði,“ bætir hún við. Þá telur hún augljóst, á því sem lögreglumennirnir sögðu við hana í upphafi, að þeir vissu hver hún væri.

Sett í jörðina fyrir að reyna taka atvikið upp

Næst hafi hún tekið upp símann sinn og reynt að taka atvikið upp á myndband. Henni hafi þá verið skipað að láta símann af hendi en hún neitað. Við það hafi lögreglumennirnir reiðst og tekið hana niður í jörðina.

„Ég er með áverka á enni og er komin með áverkavottorð eftir að þeir settu ennið á mér niður í malbikið. Svo rífa þeir af mér símann, bíllinn kemur og ég sett þangað inn þar sem ég er sett harkalega í handjárn og er líka með áverkavottorð vegna þess. Bæði með sár og bólgur,“ segir Elínborg.

Á lögreglustöðinni var ekki tekin skýrsla ef Elínborgu heldur var henni sagt að henni yrði leyft að fara en hún vöruð við því að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu aftur því þá myndi hún ekki „fá að njóta kvöldsins“ og skemmta sér restina af deginum.

Fjórar kærur í undirbúningi

Spurð hvort hún ætli að kæra atvikið liggur ekki á svörum: „Ekki spurning. Ég er með sýnilega áverka á úlnliðum og fyrir ofan hægra augað.“

Þá segist hún einnig ætla kæra þrjár aðrar handtökur sem hafa átt sér stað síðustu mánuði og hún segir einnig hafa verið ólögmætar. Þegar þær handtökur áttu sér stað var Elínborg að mótmæla á vegum No Borders-samtakanna. Hún telur að lögreglumennirnir hafi þekkt hana frá þeim mótmælum og að hún hafi verið stimpluð vandræðagemsi vegna þess.

Elínborg ætlar þó að reyna njóta kvöldsins með vinum sínum þrátt fyrir atvik dagsins. „Jú ég reyni það og ætli ég hlýði ekki öllum fyrirmælum sama hver þau eru,“ segir hún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert