Ísland kenni auðmýkt gagnvart náttúrunni

Kvenleiðtogar takast í hendur í sumarbústað forsætisráðherra á Þingvöllum.
Kvenleiðtogar takast í hendur í sumarbústað forsætisráðherra á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Angela Merkel segir það alltaf hafa verið draum sinn að heimsækja Ísland og að það sé heiður að fá að kynnast hér kvenleiðtoga sem horfi björtum augum til framtíðar.

Þetta sagði kanslari Þýskalands á blaðamannafundi hennar og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í sumarbústað forsætisráðherra á Þingvöllum áður en þær héldu afsíðis til að funda um málefni Evrópu, loftslagsbreytingar og jafnrétti kynjanna.

Katrín tók á móti Merkel í Hakinu áður en þær gengu fylktu liði niður Almannagjá. Þær stigu svo örstutt inn í Þingvallakirkju áður en þær ávörpuðu fullan sal fjölmiðla í ráðherrabústaðnum.

Á blaðamannafundinum sagði Merkel það sérstaklega skemmtilegt að fá að heimsækja stað þar sem lýðræði var við völd fyrir þúsund árum, auk þess sem henni þótti ánægjulegt að funda á litlum og afviknum stað eins og sumarbústað forsætisráðherra.

Merkel var nokkuð hress eftir gönguna um Almannagjá.
Merkel var nokkuð hress eftir gönguna um Almannagjá. mbl.is/Kristinn Magnússon

Merkel og Katrín lögðu í ávörpum sínum sérstaka áherslu á umhverfismál sem og jafnrétti kynjanna. Merkel sagði Þýskaland jafnvel geta litið til Íslands í þessum málefnum, þar sem Ísland stefndi að því að verða kolefnishlutlaust tíu árum á undan Þýskalandi. Þá þyrfti Þýskaland að spýta sérstaklega í lófana er kynjajafnrétti varðar, enda sé Ísland þar efst á lista en Þýskaland aðeins í 14. sæti.

Að lokum rifjaði Merkel upp þegar hún komst ekki leiðar sinnar til Bandaríkjanna vegna eldgoss á Íslandi um árið. Þannig sagði hún Ísland sýna og kenna að maðurinn þyrfti að koma vel fram við náttúruna og sýna gagnvart henni auðmýkt.

Katrín rifjaði upp menntaskólaþýskuna á fundinum.
Katrín rifjaði upp menntaskólaþýskuna á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert