Mótsögn í umræðum um sæstreng

Frá fundi utanríkismálanefndar um orkupakkann í maí.
Frá fundi utanríkismálanefndar um orkupakkann í maí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður segir mótsögn felast í því að ætla að samþykkja þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem gengur út á að tryggja sameiginlegan raforkumarkað innan Evrópu, en standa síðan í vegi fyrir því að sæstrengur geti nokkurn tímann verið lagður hingað til lands. Tómas kom fyrir fund utanríkismálanefndar Alþingis í morgun.

Í minnisblaði sem Tómas lagði fyrir nefndina kemur fram að Evrópudómstóllinn (ECJ) beiti jafnan svokölluðum markmiðsskýringum við túlkun á lögum og reglugerðum sambandsins, þ.e. horfi til þess hvert markmið með löggjöfinni er, og bendir hann máli sínu til stuðnings á dómafordæmi. Þannig hafi Evrópudómstóllinn á sjöunda áratugnum úrskurðað að lög sambandsins væru framar lögum aðildarríkja þótt ekkert hafi verið um það að finna í Rómarsáttmálanum, stofnsáttmála Evrópusambandsins.

„Dómstóllinn komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að Evrópusambandið gengi ekki upp nema reglurnar væru svoleiðis.“

Markmiðið með þriðja orkupakka ESB er öðrum þræði að koma á fót sameiginlegum orkumarkaði innan sambandsins, en tilkoma hans hefur meðal annars stuðlað að betri nýtingu orku sem frjáls flæðir milli aðildarríkja.

Ljóst sé að eigi Ísland að taka þátt í þessum markaði, eins og reglugerðin kveður á um, þá verði það aðeins gert með sæstreng. Segir Tómas að reyni stjórnvöld að koma í veg fyrir lagningu sæstrengs gætu „dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að Ísland uppfylli ekki skuldbindingar orkupakkans“, þótt ekki sé vikið berum orðum að sæstreng í orkupakkanum.

Þarf að kanna nánar

Tómas kallar eftir því að þessi flötur orkupakkaumræðunnar verði kannaður til hlítar, og segir aðspurður að sá fjöldi lögfræðiálita sem ritaður hefur verið um téðan pakka hafi ekki kannað þennan vinkil nægilega; meira hafi verið lagt upp úr því hvort orkupakkinn standist stjórnarskrá, sem sé önnur umræða.

Einhverjir hafa þó kannað áhrif orkupakkans á mögulega sæstrengsskyldu. Hilmar Gunnlaugsson lögmaður ritaði lokaritgerð sína um Acer og áhrif þriðja orkupakkans í meistaranámi á sviði orkuréttar, en hann kom fyrir utanríkismálanefnd fyrir helgi. Er hann þeirrar skoðunar að ekkert í orkupakkanum auðveldi lagningu sæstrengs, „en það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem lögmenn eru ósammála,“ eins og Tómas kemst að orði.

Bendir Tómas á að umræðan hér snúist ekki um það hvort sæstrengur sé endilega hagkvæmur. „Það getur vel verið hið besta mál fyrir Ísland að tengjast þessum raforkumarkaði og frábært fyrir Íslendinga að geta selt raforku á hærra verði.“

Ætlum við að halda raforkunni hér á landi sé þó mikilvægt að hafa í huga hvað felst í orkupakkanum, og þar gæti mótsagnar hjá þeim sem vilja innleiða orkupakkann. Ekki verður jú bæði haldið og sleppt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert