Útvarp 101 verður símafyrirtæki

Unnsteinn Manúel kynnti nýja símafélagið á blaðamannafundi í morgun.
Unnsteinn Manúel kynnti nýja símafélagið á blaðamannafundi í morgun. mbl.is

Nýtt íslenskt símafélag hóf göngu sína eftir blaðamannafund í Hörpu í morgun. Það gengur undir nafninu 101 Sambandið og er rekið á dreifikerfum Vodafone. Sýn hf., eigendur Vodafone á Íslandi, á þá helmingshlut í rekstrarfélagi símafélagsins. Velkomin í sambandið, er viðkvæðið, sbr. skilti á sumum strætóstoppistöðvum undanfarið.

Sama fólk er á bak við 101 Sambandið og Útvarp 101 og skrifstofurnar verða á sama stað. Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, sem hefur verið útvarpsstjóri hjá Útvarpi 101, tók til máls á fundinum í morgun, rétt eins og Unnsteinn Manuel Stefánsson listamaður. Eigendur Útvarps 101 eru, rétt eins og símafélagsins, Sýn hf. til hálfs og listamenn ýmsir til hálfs, Logi Pedro, bróðir Unnsteins; Jóhann Kristófer Stefánsson, Joey Christ; Sigurbjartur Sturla Atlason, Sturla Atlas; Aron Már Ólafsson, Aronmola og svo framvegis.

101 Sambandið er nýtt símfyrirtæki. Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, útvarpsstjóri hjá …
101 Sambandið er nýtt símfyrirtæki. Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, útvarpsstjóri hjá Útvarpi 101, og Unnsteinn Manuel Stefánsson, listamaður og talsmaður nýs símfyrirtækis. mbl.is/Snorri

101 Sambandið hefur innreið sína inn á markað harðrar samkeppni. Það virðast byrja á að undirbjóða það sem þegar er í boði á markaði. Ódýrasta leiðin þeirra er 1.990 krónur á mánuði fyrir 10 GB. Hjá flestum fá menn 5GB fyrir það verð. Þá má færa gagnamagn á milli áskrifenda, „hjálpa vini í neyð“, sem er einnig sögð nýjung á fjarskiptamarkaði.

Samstarf við Sýn

101 Productions, rekstrarfélagið á bak við þetta, hefur rekið Útvarp 101 frá því í haust, í samstarfi við Sýn. Sýn fór að reka Vodafone um svipað leyti og það eignaðist fjölmiðlana Vísi, Bylgjuna, X-ið og svo framvegis, þegar 365 miðlar voru seldir, þegar Ingibjörg Pálmadóttir og eiginmaður hennar Jón Ásgeir færðu rekstur Fréttablaðsins undir félagið Torg og héldu áfram að standa í honum, en ekki annarri fjölmiðlun.

365 miðlar ráku sitt eigið símafyrirtæki á sínum tíma undir merkjum 365 miðla, sem vel að merkja hafði áður verið Tal, en það var leyst upp þegar fjölmiðlarnir í eigu 365 fóru yfir til Sýnar annars vegar og Torgs hins vegar. Líta má á þetta útspil Útvarps 101 sem viðleitni Sýnar til þess að ná til unga fólksins, með hliðstæðum hætti og til dæmis Síminn gerir með Þrennu. Þrenna stendur einnig á ákveðnum tímamótum um þessar mundir, enda hefur Berglind Pétursdóttir „festival“ látið þar af störfum sem markaðssérfræðingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert