Jákvæður gagnvart hópmálsókn

Hverfisgata er sundurgrafin þessa dagana.
Hverfisgata er sundurgrafin þessa dagana. mbl.is/Hallur Már

Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins við Hverfisgötu, segist vera jákvæður gagnvart hugsanlegri hópmálsókn gegn Reykjavíkurborg vegna framkvæmdanna sem hafa staðið yfir við götuna í allt sumar.

„Ég er að bíða eftir þessum kynningarfundi sem verður einhvern tímann í vikunni og ætla að taka ákvörðun eftir það. Ég er frekar jákvæður gagnvart þessu,” segir Ásmundur.

Fréttablaðið greindi í morgun frá því að lögmaður væri að undirbúa hópmálsókn rekstraraðila við Hverfisgötu. Þar kom fram að að minnsta kosti þrír rekstraraðilar væru reiðubúnir til viðræðna um hópmálsókn.

Ásmundur segist hafa fengið tvö símtöl frá lögmanninum og telur að flestir séu til í að mæta á kynningarfundinn og heyra hvað hann hefur að segja. „Það eru allir búnir að tapa tekjum.“

Spurður nánar út í tekjutapið á Gráa kettinum segir hann að það hlaupi á milljónum, bara í sumar, en ítrekar að kötturinn hafi níu líf. „Við lifum þetta af.”

Telurðu að þú eigir rétt á bótum frá Reykjavíkurborg?

„Það fyrsta sem ég spurði að í maí var hvort ég fengi bætur. Sá sem var fyrir svörum sagði að það kæmi ekki til greina.”

Ásmundur Helgason.
Ásmundur Helgason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talað hefur verið um að framkvæmdum ljúki í september en Ásmundur hefur enga trúa á því. Hann segir fyrstu skilaboðin frá borginni í maí hafi verið á þá leið að byrja ætti að malbika götuna miðjan júlí. Það hefur enn ekki verið gert. Hann nefnir að enn eigi eftir að taka upp gangstéttina fyrir framan Gráa köttinn og bætir við að heita vatnið á veitingastaðnum hafi farið um helgina en slíkt hafi áður gerst.

Vill ekki tjá sig um hópmálsókn

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir erfitt að tjá sig um hópmálsókn sem ekki sé farin af stað en tekur fram að það sé réttur hvers og eins að sækja þau mál sem hann kýs. 

Framkvæmdir hafa staðið yfir við Hverfisgötu í sumar.
Framkvæmdir hafa staðið yfir við Hverfisgötu í sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert