Telja dönsk lög gilda um smálánin

Ondrej Smakal, forstjóri fyrirtækisins, segir að það telji dönsk lög …
Ondrej Smakal, forstjóri fyrirtækisins, segir að það telji dönsk lög en ekki íslensk eiga að gilda um smálánasamninga við viðskiptavini á Íslandi. Úr því ætlar fyrirtækið að fá skorið fyrir dómstólum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækið eCommerce 2020, sem hefur aðsetur í Danmerku en býður íslenskum neytendum upp á smálán í gegnum þjónusturnar 1909, Hraðpeninga, Kredia, Múla og Smálán, segir dönsk lög en ekki íslensk gilda um starfsemi sína og hyggst kæra ákvörðun Neytendastofu, sem sagði í gær að fyrirtækinu bæri að fara eftir íslenskum lögum við gerð neytendasamninga sinna.

Neytendastofa segir fyrirtækið hafa gerst brotlegt við lög um neytendalán í þremur liðum, með því að leggja of háan kostnað ofan á neytendalán sín og svo í tvennu lagi vegna ófullnægjandi upplýsingagjafar, annars vegar í stöðluðu eyðublaði og hins vegar í lánssamningi.

Neytendastofa krefur fyrirtækið um úrbætur og hótar álagningu sekta verði ekki brugðist við.

Ósammála því að íslensk lög eigi við

eCommerce 2020 vill koma því á framfæri að fyrirtækið hafi undanfarna mánuði átt í góðu samstarfi við Neytendastofu og tekið til greina athugasemdir frá stofnuninni varðandi starfsemi félagsins hér á landi, en vextir á smálánum fyrirtækisins voru lækkaðir fyrr í sumar.

Nokkur styr hefur staðið um starfsemi þeirra smálánafélaga sem bjóða þjónustu sína hér á landi undanfarin misseri.

„Búið er að stórlækka kostnað á lánum sem standa viðskiptavinum til boða, neytendum til hagsbóta. Eftir stendur að félagið er ósammála þeirri niðurstöðu Neytendastofu að íslensk lög gildi um lánin,“ segir í tilkynningunni.

„Við teljum að dönsk lög, en ekki íslensk, gildi um þá samninga sem við höfum gert við viðskiptavini okkar og erum á því að það sé nauðsynlegt að fá skorið úr þessu lagalega álitaefni. Þangað til að úrskurður fæst munum við að sjálfsögðu halda áfram að gera okkar til þess að samstarfið við Neytendastofu verði sem best,“ segir Ondrej Smakal, forstjóri fyrirtækisins í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert