Smurolíuagnir geta valdið veikindum

Vinnuumhverfi flugfreyja og -þjóna er um margt frábrugðið því sem …
Vinnuumhverfi flugfreyja og -þjóna er um margt frábrugðið því sem gengur og gerist í öðrum störfum. Árni Sæberg

Það loft sem áhafnir og farþegar anda að sér um borð í flugvélum er tekið inn í gegnum hreyflana. Það blandast síðan síuðu lofti sem er í hringrás í loftrás flugvélarinnar. Reynt er eftir föngum að tryggja loftgæði í flugvélum og mælingar sýna að þau séu yfirleitt með miklum ágætum. Þetta segir Axel F. Sigurðsson, trúnaðarlæknir hjá Icelandair og læknir á Hjartamiðstöðinni.

„Við ákveðnar kringumstæður geta þó skapast aðstæður þar sem agnir úr smurolíum úr hreyflum berast í innöndunarloftið. Þótt flest bendi til að þetta sé fátítt getur þetta valdið sjúkdómseinkennum hjá fólki sem er viðkvæmt fyrir slíkum efnum,“ segir hann.

Fimm flugfreyjur og -þjónar hjá Icelandair skoða nú grundvöll fyrir málsókn gegn félaginu vegna veikinda sem þau telja að megi rekja til slæmra loftgæða um borð í vélum félagsins. Að sögn Óðins Elíssonar, lögmanns fólksins, hafnar Icelandair því að veikindin megi rekja til slæmra loftgæða.

Greint var frá þessum veikindum í fréttum í fyrra og þar kom m.a. fram að fólk úr áhöfn vélar, sem var að koma frá Kanada, hefði leitað læknis eftir ferðina vegna höfuðverkja, þreytu og óþæginda. Engar spurnir bárust af veikindum farþega í sömu vél.

Spurður hverju það sæti segir Axel ýmsar skýringar geta verið á því. „Flugfreyjur og -þjónar eru á þönum alla leiðina og hafa því meiri súrefnisþörf. Það gæti gert þau viðkvæmari fyrir skertum loftgæðum. Þá er einnig hugsanlegt að áhafnir séu útsettari fyrir þessu þar sem þær eru endurtekið í þessu umhverfi.“

Vinnuumhverfi flugfreyja og -þjóna er um margt frábrugðið því sem er í öðrum störfum. „Að mörgu leyti er ekki hægt að bera það saman við annað,“ segir Axel, sem er sérmenntaður í fluglækningum. Hann birti nýverið grein á vefsíðu sinni, docsopinion.com, þar sem hann fjallar um þau áhrif sem störf í háloftunum geta haft á heilsufar fólks.

Þar kemur fram að flugfreyjur og -þjónar andi að sér þurru og súrefnissnauðu flugvélalofti við störf sín, þau verði fyrir geislun, talsverður hávaði og hristingur sé um borð og starfið krefjist ýmissa líkamlegra átaka. Þá sé algengt að verða fyrir áreitni af ýmsum toga, m.a. kynferðislegri.

„Flugfreyjur og -þjónar eru einu aðilarnir um borð í flugvélum sem eru á stöðugri hreyfingu og þurfa að erfiða líkamlega við þessar aðstæður,“ segir Axel.

Verða fyrir mikilli geislun

Axel F. Sigurðsson hjartalæknir og trúnaðarlæknir Icelandair.
Axel F. Sigurðsson hjartalæknir og trúnaðarlæknir Icelandair. Árni Sæberg

Í grein sinni vísar hann í rannsókn sem gerð var á vegum Harvard-háskóla á heilsufarsáhrifum þess að vinna um borð í flugvél. Niðurstöður rannsóknarinnar voru m.a. að tilteknar tegundir krabbameins eru algengari meðal flugþjónustufólks en annarra. Meðal þess sem um ræðir er krabbamein í móðurlífi, leghálsi, skjaldkirtli, maga og ristli, en flugfreyjur og -þjónar verða fyrir jónandi geimgeislun sem getur aukið líkur á krabbameini og dregið úr frjósemi fólks.

Þá var flugþjónustufólk meira en tvöfalt líklegra til að fá húðkrabbamein og líkurnar á brjóstakrabbameini voru 51% hærri. Axel segir að þessi geislun aukist eftir því sem hærra er flogið. „Bandarískar tölur sýna að engin starfsstétt verður fyrir jafn mikilli geislun og flugfólk. Þeir sem vinna með geisla, eins og t.d. læknar, eru að öllu jöfnu með varnarbúnað eins og blýsvuntur og þar er hver starfsmaður með mæli til að fylgjast með geislamagninu. Í dag er fylgst með geislun á flestum flugleiðum og flugáhafnir fá m.a. upplýsingar um áætlað geislamagn sem þær verða fyrir í hverri flugferð,“ segir hann.

Flugþjónustufólk þarf að athafna sig á þröngu svæði og þarf að lyfta og halda á þungum hlutum. Þetta getur ýtt undir stoðkerfisvanda að sögn Axels. Þá geti ókyrrð í lofti ýtt undir slíkan vanda og sé þekktur slysavaldur hjá flugfólki.

Spurður hvort hægt sé að bæta vinnuumhverfið segir Axel að hann viti til þess að hjá Icelandair sé stöðug vinna í gangi við að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks. „En það eru takmörk fyrir því hvað flugfélögin sem slík geta gert, ábyrgðin er líka hjá flugvélaframleiðendum. Þegar kemur að loftgæðunum er eitt og annað sem getur farið úrskeiðis í flugi. Fæst þessara atvika eru alvarleg, en þó er þekkt að þau geti stundum valdið veikindum hjá flugfólki. Það er áhyggjuefni og verið er að leita lausna. Icelandair hefur gert ýmsar ráðstafanir til að minnka líkur á slíkum atvikum, eins og reyndar flugfélög víða um heim.“

Vinnutími hefur áhrif

Annað sem Axel segir að geti haft áhrif á heilsufar flugþjónustufólks er óreglulegur vinnutími. „Það er meira um svefnraskanir hjá flugfólki en öðrum og neikvæð áhrif óreglulegs vinnutíma og svefns eru margsönnuð. Til dæmis getur það aukið líkurnar á kvíða og þunglyndi.“

Í greininni vísar Axel í rannsókn sem sýndi að 65% ástralsks flugþjónustufólks hefðu orðið fyrir kynferðisáreitni í störfum sínum. Áreitnin fólst m.a. í því að farþegar beruðu sig, káfi, kynferðislegum athugasemdum og nokkuð var um alvarlegar kynferðislegar árásir. Slík tilvik eru sjaldan tilkynnt að sögn Axels. „En vonandi breytist það með #metoo-byltingunni. Það á enginn að þurfa að sætta sig við slíka framkomu,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert