Veitti Bretum ráð á Sky News

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hvatti á ný Breta til …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hvatti á ný Breta til EES aðildar. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var í stuttu viðtali í morgun á bresku fréttastöðinni Sky News. Þar sagðist formaðurinn sannfærður um að Bretlandi myndi farnast vel utan Evrópusambandsins, enda hefði það tekist í tilfelli Íslands þrátt fyrir bankahrunið.

Hann sagði velgengnina grundvallast á að utan Evrópusambandsins er þjóðinni mögulegt að taka ákvarðanir út frá sínum hagsmunum og út frá þeim áskorunum sem hún er að glíma við. „Ég er ekki í vafa um að ykkur takist að dafna betur en áður, en það er vissulega þannig að það geta orðið vandamál til skamms tíma […] og líklega margir sem munu vilja kenna útgöngu Bretlands um þá stöðu.“

Sigmundur endurtók síðan skilaboð sín til Breta sem hann birti nýverið í aðsendri grein í Spectator, þar sem hann hvetur Bretland til þess að ganga tímabundið í EES í þeim tilgangi að forðast skammtímavandann.

Spurður hvort hann væri að segja að Bretland gæti ekki tekist á við samningslaust Brexit, sagði Sigmundur það ekki vera hans skilaboð. Hins vegar væri hann að mæla með leið til þess forða Bretum frá fyrrnefndum skammtímavandamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert