Utanríkisráðherra hefur fengið líflátshótanir

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur fengið líflátshótanir á samfélagsmiðlum í tengslum við þriðja orkupakkann og eru þær nú á borði embættis ríkislögreglustjóra. Einnig hefur utanríkisráðuneytið gripið til öryggisráðstafana vegna hótananna. Fréttablaðið greindi frá þessu fyrr í dag, en ráðherra staðfestir þetta við mbl.is.

„Maður er ýmsu vanur en í þessu tilfelli er augljóst hver er ásetningurinn með þessari svokölluðu fjölmiðlaumfjöllun,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við Fréttablaðið og vísaði þar til fréttar sem birtist á vefmiðlinum Fréttatímanum í gær, þar sem því var haldið fram að Guðlaugur Þór og fjölskylda hans myndu hagnast persónulega á innleiðingu orkupakkans.

Sú umfjöllun, sem sett var fram undir fyrirsögninni „Skilar orkupakki 3 625 milljónum í vasa utanríkisráðherra?“, hefur farið víða á netinu síðan hún birtist í gær og vegna hennar hafa líflátshótanir verið settar fram á samfélagsmiðlum. 

Guðlaugur Þór hafði áður vísað vangaveltum um að hagsmunir fjölskyldu hans réðu nokkru um stuðning hans við þriðja orkupakkann til föðurhúsanna. „Allt tal um að mín fjöl­skylda hagn­ist á Bú­lands­virkj­un, hvað þá um millj­arða króna, er fjar­stæðukennt,“ sagði ráðherra í yfirlýsingu vegna málsins í apríl síðastliðnum.

Guðlaugur Þór segir í samtali við Fréttablaðið að ráðuneytinu hafi verið ráðlagt að líflátshótanir beri að taka alvarlega og því hafi þær verið settar í farveg hjá ríkislögreglustjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert