Endurræsing hafin í kerskála þrjú

Kerskáli þrjú var endurræstur í gær, rúmum mánuði eftir að …
Kerskáli þrjú var endurræstur í gær, rúmum mánuði eftir að slökkt var á honum vegna ljósboga sem myndaðist í einu keranna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrstu tvö kerin af 160 í skála 3 í álverinu í Straumsvík voru endurræst í gær. Slökkt var á skálanum 21. júlí sl. af öryggisástæðum eftir að ljósbogi myndaðist inni í einu keranna. 

Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, segir að undirbúningur við endurræsingu hafi gengið vel og sé jafnvel nokkuð á undan áætlun. Endurræsing keranna sjálfra í gær gekk vel að sögn Bjarna. 

Um þriðjung­ur fram­leiðslu ál­vers­ins fer fram í skál­an­um en alls eru 160 ker í hverj­um ker­skála í ál­ver­inu. Endurræsingarferlið er því langt og strangt og áætlað er að það taki fáeina mánuði. Að jafnaði eru nokkur ker ræst á hverjum degi. Gott jafnvægi er í hinum skálunum tveimur að sögn Bjarna Más, sem er grundvöllur fyrir endurræsingu kerskála þrjú. 

Bjarni Már segir að ekki sé hægt að segja til núna um hvert fjárhagslegt tjón af stoppi skálans er en mikilvægast sé að ferlið sé komið af stað. 

„Starfsfólk hefur unnið þétt saman við að undirbúa ferlið en það er mikið í gangi þar sem við erum í dag líka að halda upp á að 50 ár eru liðin frá því að framleiðsla áls hófst á Íslandi,“ segir Bjarni Már í samtali við mbl.is. 

Fjölskylduhátíð verður í álverinu í dag milli klukkan 13 og 17 þar sem fólki gefst tækifæri til að kynna sér starfsemina og skemmta sér í leiðinni. „Það kallar á mikinn undirbúning að opna okkar dyr með þessum hætti en tækifærið er einstakt í dag,“ segir Bjarni Már.

Í boði verður leiðsögn í rútu um svæðið þar sem færi gefst á að skoða og ganga í gegnum tæknivæddan steypuskálann. Opið verður inn í kerskála 1 og öll helstu tæki og tól sem notuð eru við framleiðsluna verða sýnd, sem og afurðir álversins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert