„Ein setning getur breytt öllu“

Hin eina sanna Sigga Kling hefur störf á Árvakri eftir …
Hin eina sanna Sigga Kling hefur störf á Árvakri eftir helgi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mikill munur á orðunum sem við hugsum og orðunum sem við segjum,“ segir Sigga Kling, spákona og veislustjóri, í samtali við Sunnudagsblaðið. „Mikill, mikill munur. Af því þegar þú segir eitthvað, þá heyrir þú það. Þá ertu að nota fleiri skynfæri í það. Maður þarf að passa orðin sín. Tóninn í röddinni þegar þú talar við einhvern. Hvernig þú segir eitthvað.“

Hún segir orð hafa gríðarleg áhrif, bæði á okkur sjálf og annað fólk, og þess vegna sé mikilvægt að gæta orða sinna.

„Fólki finnst oft asnalegt að hrósa einhverjum því það heldur að honum líði svo dásamlega vel og allt sé svo gott hjá honum. En við þurfum öll orð. Orð eru orka og sú orka eyðist aldrei. Ein setning getur breytt öllu. Svo í hvert skipti sem maður dreifir þessari orku er maður að byggja upp lífið, og með hverri hugsun og hverju orði byggirðu upp líf þitt,“ útskýrir Sigga.

Stjörnuspáin í Mogganum

Í vikunni hefur Sigga störf hjá miðlum Árvakurs þar sem hún mun meðal annars halda úti sinni vinsælu stjörnuspá á mbl.is. Auk þess verður hún vikulegur gestur í Morgunblaðinu og á útvarpsstöðinni K100.

„Stjörnuspáin verður með sama móti og áður. Ég nota aðra aðferð en flestir aðrir til að spá. Ég tek kannski tíu manns úr hverju stjörnumerki sem ég hef tengingu við, skrifa þau niður á blað og labba svo um gólf með kústinn minn og tengi mig við það sem er að gerast í orkunni þeirra. Þá næ ég til víðari hóps.“

Sigga segir þó að lesendur megi vænta nýjunga í spádómunum, þótt hún vilji ekki flækja hlutina um of.

„Við ætlum að bæta við svokölluðum spádómsorðum á vefnum,“ segir Sigga. „Mér hefur alltaf fundist betra að hafa hluti ekki of flókna. Þetta er eins og að kenna stærðfræði; þú getur gert það svo flókið að það skilur það enginn. Það var kennari í Garðabænum sem gat kennt öllum stærðfræði með því að nota brauð og smjör. Hann var ekki alltaf að sýna hvað hann var ótrúlega klár. Við þurfum að passa að setja ekki of mikinn geislabaug á okkur, því ef hann dettur niður, þá hengir maður sig. Ég vil hafa hluti einfalda,“ segir Sigga en spádómsorðin verða frumsýnd á forsíðu mbl.is á mánudaginn.

„Ég er örugglega mjög léleg útvarpskona því ég er með …
„Ég er örugglega mjög léleg útvarpskona því ég er með svona sjötíu hugmyndir í hausnum á mér í einu sem flækjast hver fyrir annarri. Sumir segja að ég þurfi túlk ef ég ætli í útvarpið,“ segir Sigga Kling sem hefur störf hjá miðlum Árvakurs í vikunni þar sem hún verður meðal annars vikulegur gestur á útvarpsstöðinni K100. Árni Sæberg

Nýjar áskoranir

Sigga segist spennt fyrir þessum nýja kafla í starfsferli sínum, þótt hún muni þurfa að takast á við nýjar áskoranir.

„Ég er örugglega mjög léleg útvarpskona því ég er með svona sjötíu hugmyndir í hausnum á mér í einu sem flækjast hver fyrir annarri. Sumir segja að ég þurfi túlk ef ég ætli í útvarpið. Ég held persónulega að Logi Bergmann geti gegnt þessu hlutverki. Mér finnst hann vera flottasti maður landsins.“

Segja má að starfsferill Siggu hafi að miklu leyti átt sér stað á mörkum þægindaramma hennar, en hún er löngu orðin vön því að takast á við nýjar áskoranir.
„Þegar ég stofnaði Kvennaklúbb Íslands og byrjaði að fara í kvennaferðir vildi enginn standa uppi á sviði og vera veislustjóri. Ég vildi það heldur alls ekki, en ég gerði það bara og sagði já. Maður verður að segja já við ýmsu, jafnvel þótt maður skíti upp á bak. Ég er margoft búin að skíta upp á bak uppi á sviði, en ég fer alltaf aftur.

Þegar mér var boðið að vera með partíbingó niðri í bæ hataði ég bingó og ég hataði að leggja niðri í bæ. Ég sagði já við einhverju sem ég trúi ekki að ég hafi sagt já við en það leiddi mig rétta leið.“

Nánar er rætt við Siggu Kling í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert