Góðu samkomulagi stefnt í uppnám

Logi er ánægður með að málið hafi loks verið til …
Logi er ánægður með að málið hafi loks verið til lykta leitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er búið að gera mikinn úlfalda úr mýflugu. Þetta skiptir litlu máli að því leyti að við erum ekki beintengd með sæstreng til Evrópu. Hins vegar skiptir þetta gríðarlegu máli af því þetta er lítill hluti af risastóru samkomulagi sem við erum aðilar að, EES-samningnum,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins var samþykktur með 46 atkvæðum gegn 13 á Alþingi fyrir hádegi í dag. Greiða átti atkvæði um málið í vor en var atkvæðagreiðslunni frestað vegna málþófs þingmanna Miðflokksins.

„Mér finnst það ódýrt þegar einstakir þingmenn nota lýðskrum til þess að hræða þjóðina og hugsanlega stefna góðu samkomulagi okkar við nágrannaþjóðirnar í uppnám. Við þurfum á því að halda að þjóðir vinni saman,“ segir Logi.

Stuðningsmaður miklu þéttara samstarfs

„Við munum í framtíðinni alltaf þurfa að vera að ræða með hvaða hætti við eigum samskipti við aðrar þjóðir. Við erum að glíma við risaógnir vegna fátæktar, vegna styrjalda, vegna hamfarahlýnunar, og það er útilokað að mannkynið nái einhvern veginn að ráða við þau verkefni nema með miklu þéttara samstarfi, og ég er stuðningsmaður þess.“

Logi er ánægður með að málið skuli loks hafa verið til lykta leitt. „Það er svo rosalega margt sem við þurfum að taka okkur fyrir hendur í vetur. Við þurfum að samþykkja ákvæði í nýja stjórnarskrá, við þurfum að minnka tekjuskiptingu í landinu og þurfum að bregðast við kólnandi hagkerfi. Það verður gaman að fást við svoleiðis verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert