Norsk óværa hafi flætt til Íslands

„Það kom ekkert nýtt fram hjá þeim sem hafa gagnrýnt orkupakkann. Það breytir því ekki að ég vona að þetta verði til þess að við ræðum ýmis mál sem voru rædd í tengslum við orkupakkann en hafa ekki beina tengingu við hann,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is eftir að þingstubbnum svokallaða lauk í hádeginu í dag.

Guðlaugur Þór vísar sérstaklega til þess að umræða fari fram núna í framhaldinu af samþykkt þriðja orkupakkans um orkustefnu Íslands og hagsmunagæslu innan EES-samningsins. „Það sem ég vil taka úr þessu eru ýmsir góðir þættir sem við getum gert, til þess að vinna áfram með og ræða,“ segir ráðherra.

Málið hafi verið unnið mjög vel

Þriðji orkupakkinn var samþykktur með miklum meirihluta atkvæða í þinginu í dag, en Miðflokkurinn hefur lagst algjörlega gegn málinu og ítrekað hefur verið fjallað um titring í röðum Sjálfstæðisflokksins vegna þess. Spurður hvað hann vilji segja við þá kjósendur Sjálfstæðisflokks sem nú leiti á önnur mið vegna málsins segir Guðlaugur Þór:

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Alþingi í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Stóra spurningin í þessu, sem hefur ekki verið svarað, er af hverju skiptu forystumenn Miðflokksins svona um skoðun? Þegar við komum að þessu þá liggur fyrir að þeir eru búnir að leggja það til við þingið að við samþykkjum þetta, án þess að við færum í neina þá vinnu sem við fórum síðan í. Ég get alveg fullvissað stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og aðra landsmenn um að þetta mál var unnið mjög vel. Það var tekinn allur sá tími sem þurfti, það voru allir sérfræðingar kallaðir til, vegna þess að menn taka málefnalega gagnrýni alvarlega. Ég vona bara að þetta verði til þess að beina kastljósinu að þessum mikilvægu alþjóðasamningum sem við erum aðilar að. EES-samningurinn gerir okkur kleift að keppa á jafnræðisgrundvelli á þeim markaði þar sem við eigum mestra hagsmuna að gæta, en að sama skapi höfum við unnið ötullega að því og náð árangri í að styrkja enn frekar fríverslunarnet okkar Íslendinga. Ég hlakka til að taka þá umræðu, ekki bara við stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins heldur þjóðina alla,“ sagði utanríkisráðherra.

Reynt að koma EES-samningnum fyrir kattarnef

Guðlaugur Þór segir, spurður hvort sú andstaða sem orkupakkamálið hefur mætt innan þings og utan hafi komið honum á óvart, að svo hafi ekki endilega verið. Hann segir norsk áhrif vera mikil í andstöðuhreyfingunni.

„Ég hef náttúrlega fylgst með stjórnmálum lengi og verið þátttakandi í stjórnmálum lengi, meðal annars alþjóðastjórnmálum. Við höfum verið laus fram til þessa við þá óværu sem er í norskum stjórnmálum, sem er stefna norska Miðflokksins og líka sömuleiðis þau samtök sem kalla sig Nei til EU, en eru í rauninni eins og Miðflokkurinn norski að reyna að koma EES-samstarfinu fyrir kattarnef. Það var kannski tímaspursmál hvenær þetta flæði kæmi til landsins. Það er öllum ljóst sem vilja sjá það að þetta hefur haft mikil áhrif og við vitum það líka hvernig var gengið fram í Noregi og við máttum alveg búast við því að það yrði gengið fram með svipuðum hætti hér. En þá erum við ekki að tala um neitt sem snýr að Íslandi, þá erum við að tala um allt annað, við erum að tala um EES-samninginn.“

Utanríkisráðherra kveðst ánægður með að hafa þegar sett af stað vinnu við að styrkja hagsmunagæslu Íslands innan EES og sömuleiðis vinnu við skýrslu um kosti og galla EES-samningsins, sem nú er unnin í ráðuneyti hans undir stjórn Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra. Ráðherra segir ekki langt í að sú skýrsla líti dagsins ljós.

Frá mótmælum á Austurvelli í dag.
Frá mótmælum á Austurvelli í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hafði nú meiri áhyggjur af því á sínum tíma að það væri erfitt að ræða þessi mál og erfitt að fá kastljósið, en ég lít á þetta sem tækifæri til þess að ræða þessi mál og hlakka til þeirrar umræðu,“ segir Guðlaugur Þór.

„Kominn með sigg á sálina“

Persóna utanríkisráðherra sjálfs hefur verið töluvert til umræðu að undanförnu og meðal annars var fjallað um það í fjölmiðlum í lok síðustu viku að hann hefði hlotið lífslátshótanir eftir að umfjöllun birtist á vefnum Fréttatímanum, þar sem ýjað var að því að Guðlaugur Þór og fjölskylda hans gætu hagnast persónulega vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Sú umræða er einfaldlega fráleit og stenst enga skoðun, segir Guðlaugur Þór.

„Það kannski segir okkur svolítið hvernig þessi umræða er. Ég hefði nú viljað að hún hefði verið málefnalegri. En ég skil þann hóp fólks sem hefur verið með málefnalegar athugasemdir og haft af þessu raunverulegar áhyggjur og öll þessi vinna hefur miðað að því að koma til móts við það. Hitt er, ja, það er best að hafa sem fæst orð um það.“

Guðlaugur Þór segir að það sé í hag allra Íslendinga að fara ekki inn á þessar brautir.

„Við munum alltaf takast á og það er allt í lagi, þannig á það að vera í lýðræðisþjóðfélagi, en við hljótum að geta gert það með þeim hætti að það sé sómi að og við getum verið stolt af því að geta tekist á um erfið mál án þess að fara inn á brautir eins og þessar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert