„Þetta selst ekki. Fólk vill þetta ekki.“

Fólk hefur ólíka afstöðu til hlutanna.
Fólk hefur ólíka afstöðu til hlutanna. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta selst ekki. Fólk vill þetta ekki. Það sem er verðmæti í augum eins er það ekki hjá öðrum,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, spurður út í heillega hluti sem fólk vill setja í nytjagám en er vísað frekar í gám sem er losaður í urðun. 

Í þessu samhengi bendir hann á að það þýði lítið að koma með myndbandsspólur í Góða hirðinn. Þær seljist ekki. „Oft koma þessir hlutir ekki fyrr en fólk hefur reynt að gefa þá á netinu. Af hverju ætti að verða meira verðmæti í þeim ef þeir koma til okkar eftir að búið er að reyna að koma þessu út á netinu?“ spyr Björn.

Salan í Góða hirðinum hefur ekki dregist saman, að sögn Björns. „Við höfum reynt að koma því þannig fyrir að það sem fer í Góða hirðinn sé söluvara. Við viljum ekki vera að fara með efni þangað sem enginn vill. Undanfarið höfum við einbeitt okkur að því,“ segir hann.

Spurður hvort það hafi komið til tals að koma upp gámum sem fólk geti sótt í heillega hluti svarar hann neitandi. „Ég er ekki viss um að það fari frekar í endurnýtingu þótt fyrirkomulagið sé með þeim hætti,“ segir hann og tekur fram að það sé ekki ákjósanlegt að opna gámana fyrir fólki. „Við höfum séð það þegar næturgestirnir koma að þeir skilja ekki vel við.“ 

Stór húsgögn seljast ekki vel

Viðskiptavinir Góða hirðisins hafa óskað eftir fleiri húsgögnum til sölu en Björn fullyrðir að þau seljist ekki. „Við höfum heldur ekki endalaust geymslupláss fyrir svona efni. Við horfum á þetta þannig að við þurfum að reka markaðinn og þurfum að greiða laun og leigu og safna fyrir góðgerðarmálum,“ segir hann og ítrekar að þetta sé vandratað. 

Spurður út í breytt viðhorf fólks til notaðra hluta og hvort Sorpa geti ekki nýtt sér það í auknum mæli segist hann ekki hafa orðið var við það í Góða hirðinum. „Það er ekki rosaleg aukning en það er aukning. Í samhengi hlutanna má benda á að það sem fer í Góða hirðinn selst en það er um 0,6% af öllum úrgangi. En mikilvægt engu að síður,“ segir hann. 

„Auðvitað verður alltaf að skoða nýja möguleika. Við höfum líka takmarkað pláss,“ segir hann spurður hvort til greina komi að endurskoða núverandi fyrirkomulag.   

Nóg er til af dóti í Góða hirðinum.
Nóg er til af dóti í Góða hirðinum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert