Stærra bákn og meiri skattbyrði

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst standa upp úr þessu frumvarpi, líkt og undanfarin ár, óhófleg bjartsýni á þróun efnahagsmála og að einhverju leyti sem afleiðing af því er áfram verið að bæta við báknið. Talað er fjálglega um skattalækkanir en á sama tíma er hins vegar gert ráð fyrir að skatttekjur ríkisins aukist mjög verulega. Um marga tugi milljarða króna.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2020. Haldið sé síðan áfram að búa til nýja skatta og gjöld. „Alls konar dellugjöld sem mörg hver eru í rauninni nefskattur. Nú á til dæmis að setja á einhver sorpgjöld. Fólk borgar þegar einhverja skatta og borgar sérstaklega fyrir förgun en nú á að setja á eins konar refsiskatt fyrir að henda sorpi og á sama tíma á auðvitað að hækka aðra svokallað græna skatt.

Þrjú þrep eins og hjá vinstristjórninni

Mér þykir þetta mikil öfugþróun, að vera að flækja skattkerfið með þessum hætti og um leið auðvitað fela þær álögur sem verið er að leggja á fólk með því að dreifa þeim á hitt og þetta og gefa því ný nöfn. Þannig að álögur á almenning á Íslandi eru á heildina litið alltaf að aukast. Þetta eru þessi sýndarstjórnmál ég hef verið að gagnrýna.“

Sigmundur segir að við þetta bætist að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætli að taka aftur upp þriggja þrepa skattkerfi, líkt og verið hafi í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þegar hann hafi áður státað sig af því að skattþrepum hefði verið fækkað niður í tvö í ríkisstjórninni sem þeir tveir fóru fyrir.

„Ég hefði talið miklu vænlegra að koma til móts við þá tekjulægstu með því að hækka persónuafsláttinn en þess í stað er hann lækkaður og skattar hækkaðir í milliþrepinu nýja. Þannig að mér þykja margt í þessu vera pólitísk leiktjöld en áhrifin af því verða jafnt og þétt auknar álögur á almenning og flóknara skattkerfi.“

Þá gagnrýnir Sigmundur ennfremur að samnýting skattþrepa hjóna, og annarra samskattaðra einstaklinga, falli niður um áramótin samkvæmt frumvarpinu sem skila eigi ríkissjóði þremur milljörðum króna árlega. „Þetta er skattahækkun og gengur þannig gegn því sem ég hefði talið meðal grundvallarhugsjóna Sjálfstæðisflokksins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert