Stolt af forgangsröðun í þágu menntunar

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnir aðgerðir sem fjölga eiga …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnir aðgerðir sem fjölga eiga kennurum í mars sl. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við viljum samkeppnishæfa háskóla og liður í því er að bæta fjármögnun þeirra, sem við höfum verið að gera alveg síðan þessi ríkisstjórn tók við. Við erum klárlega að forgangsraða í þágu menntunar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, í samtali við mbl.is spurð um framlög til háskólastigs í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær.

„Ég er mjög stolt af því að sjá að það er aukning og metnaður á hverju ári síðan ég varð ráðherra,“ bætir hún við.

Hinn nýi lánasjóður „gjörbreyting“

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2020 er ráðgert að þau nemi 41 milljarði króna á næsta ári. Aðspurð hvort hún telji að stúdentar finni fyrir þessari aukningu segir Lilja:

„Já, þeir finna fyrir auknum gæðum og fjárfestingum í háskólastarfi. Svo er hinn nýi lánasjóður gjörbreyting og ég hef fengið færustu sérfræðinga landsins til þess að búa til nýjan lánasjóð með okkur sem á að stuðla að jöfnu aðgengi að námi þannig að allir geti farið í nám við hæfi.“

Í frumvarpi til fjárlaga er fjallað um háskólastig og því skipt í tvo flokka: Háskólar og rannsóknarstarfsemi og Stuðningur við námsmenn. Athygli vakti í gær að fjárframlög til síðarnefnda flokksins lækka úr 8,2 milljörðum frá fjárlögum ársins 2019 í 4,2 milljarða í fjárlögum fyrir árið 2020.

Ástæðan er sú að á undanförnum árum hefur Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN, fengið framlög umfram raunþörf sjóðsins. Því er gert ráð fyrir að framlög til sjóðsins verði lækkuð í frumvarpinu og gengið verði á handbært fé, sem var 13,4 milljarðar í árslok 2018, og eigið fé sjóðsins, sem var 104 milljarðar í árslok 2018.

Lánasjóðurinn fjármagnaður að fullu 

„Háskólastigið er í raun þrír þættir: Fyrst eru það háskólarnir og þeir eru að fá aukið fjármagn, síðan eru það rannsóknir og háskólar þar sem er líka aukning,“ segir Lilja og heldur áfram:

„Svo komum við að Lánasjóði íslenskra námsmanna og þar lítur það út eins og það sé verið að taka fjármuni af honum og lækka framlög til háskólastigsins um milljarða. En það er ekki raunin, heldur tökum við fjármunina annars staðar frá.“

Lilja útskýrir þetta frekar og segir: „Það sem hefur verið að gerast á síðustu árum er að ríkissjóður hefur sett talsvert mikið í lánasjóðinn en eftirspurnin eftir lánunum hefur hríðfallið. Ríkissjóður hefur því verið að setja inn peninga sem safnast upp af því að þeir eru ekki nýttir. Sjóðurinn er að fullu fjármagnaður en við tökum af eigin fé og handbæru fé.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert