Enginn Íslendingur óskað aðstoðar

Farið er að hvessa allverulega í Tókýó, en fellibylurinn Faxai …
Farið er að hvessa allverulega í Tókýó, en fellibylurinn Faxai gengur yfir borgina í dag. AFP

Enginn Íslendingur hefur haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna fellibylsins Faxai sem gengur yfir Tókýó í dag. Þarlend yfirvöld hafa sent frá sér viðvörun vegna hættu á miklum öldugangi, aurskriðum og flóðum og unnið hefur verið að rýmingu svæða í dag, en mikið hvassviðri og úrkoma fylgja fellibylnum. Vindhraði í námunda við Faxai mælist um 60 metrar á sekúndu.

Na­oji Nakamura, talsmaður japönsku veður­stof­unn­ar, sagði við frétta­menn að felli­byl­ur­inn gæti slegið eldri vind- og úr­komu­met. 

46 Íslendingar skráðir í Japan

„Enginn hefur beðið um aðstoð borgaraþjónustunnar vegna þessa máls. Við biðjum fólk að fara að fyrirmælum stjórnvalda á staðnum,“ segir María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins.

„Hvað fjölda Íslendinga varðar, þá fylgjumst við ekki með ferðalögum, en samkvæmt skýrslu ráðherra sem byggist á tölum úr þjóðskrá og upplýsingum frá LÍN eru 46 Íslendingar skráðir í Japan,“ segir hún. „Ef fólk þarf á aðstoð að halda, þá er neyðarsími borgaraþjónustunnar opinn allan sólarhringinn,“ segir María Mjöll, en númerið er +354 - 545-0-112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert