36 milljarðar til framhaldsskólastigsins

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framlög á hvern framhaldsskólanemenda í fullu námi hækka úr 1.732.000 kr. árið 2019 í 1.819.800 kr. árið 2020. Framlög til framhaldsskóla hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár en sú hækkun mun halda sér samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024, að því er fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. 

Þar segir að frá árinu 2017 hafi heildarframlög til framhaldsskólastigsins aukist um 1,3 milljarða króna að raunvirði.

Framlög til framhaldsskólastigsins samkv. ríkisreikningi 2018, fjárlögum 2019 og fjárlagafrumvarpi …
Framlög til framhaldsskólastigsins samkv. ríkisreikningi 2018, fjárlögum 2019 og fjárlagafrumvarpi 2020. Ljósmynd/menntamálaráðuneyti

Fjárlagafrumvarpið sem var kynnt fyrir helgi gerir ráð fyrir framlögum sem nema um 36,3 milljörðum kr. til málefnasviðs framhaldsskólastigsins en því tilheyra auk skólanna sjálfra einnig framlög til tónlistarfræðslu, vinnustaðanáms og jöfnunar námskostnaðar.

Meðal áhersluverkefna á árinu 2020 er að efla iðn-, starfs- og verknám. Forgangsraðað er í þágu slíks náms í nýju reiknilíkani framhaldsskólanna um 172 milljónir kr. á komandi ári. Þá verður unnið að tillögu um framkvæmd þingsályktunar um aðgengi að stafrænum smiðjum og farið í mat á endurskipulagningu námstíma til stúdentsprófs.

Fram kemur í tilkynningunni að áfram er unnið að því fjölga nemendum sem útskrifast úr framhaldsskóla á tilsettum tíma með því að kortleggja betur nemendur í brotthvarfshættu og innleiða reglubundnar mælingar, sérstök áhersla er þar lögð á nemendur með annað móðurmál en íslensku og nemendur á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert