Alþingi verður sett á morgun

Frá þingsetningarathöfninni í fyrra sem fór fram 11. september 2018.
Frá þingsetningarathöfninni í fyrra sem fór fram 11. september 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingsetning fer fram á morgun þriðju­dag­inn 10. sept­em­ber þar sem Alþingi kem­ur sam­an að loknu sum­ar­leyfi. Þingsetningarathöfnin verður með hefðbundnu sniði þegar 150. löggjafarþing verður sett. 

„Þetta verður allt með hefðbundnum hætti,“ segir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis. Hún tók við því embætti í síðustu viku og hefur því haft í nægu að snúast. „Þetta gengur mjög vel fyrir sig enda er hér gott og reynt fólk, valinn maður í hverju rúmi,“ segir hún spurð um undirbúninginn. 

Eins og fyrr segir verður þingsetningin með hefðbundnu sniði. Þingmenn ganga fylktu liði úr alþingishúsinu í Dómkirkjuna rétt fyrir klukkan hálftvö en þá hefst guðsþjónusta. Að því loknu ganga þeir til baka í alþingishúsið þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur löggjafarþingið og flytur m.a. ávarp. Að því loknu flytur forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, ávarp og frestar síðan þingsetningarfundi til kl. 16. 

Þegar þingmenn koma aftur í salinn er fjárlagafrumvarpinu útbýtt og dregið um sæti þingmanna. Að því loknu er fundi slitið.

Ragna Árnadóttir er skrifstofustjóri Alþingis.
Ragna Árnadóttir er skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auk þingmanna eru um 90 gestir viðstaddir þingsetninguna. Þetta eru m.a. forseti Íslands, forsetafrú, ráðherrar, alþingismenn, biskup Íslands, erlendir sendimenn, hæstaréttardómarar, fyrrverandi forsetar Alþingis, fyrrverandi skrifstofustjórar Alþingis, og ýmsir embættismenn t.d. skrifstofustjóri Alþingis, forsetaritari, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, umboðsmaður Alþingis, ríkisendurskoðandi, biskupsritari, ráðuneytisstjórar o.fl.

Sýnt verður beint frá þingsetningunni á vef Alþingis. Klukkan 14 hefst beint útsending í ríkissjónvarpinu frá setningu Alþingis en útvarpað verður frá messunni sem hefst kl. 13.30 á morgun.  

Daginn eftir þingsetningu, á miðvikudag, flytur forsætisráðherra stefnuræðu sína og eftir það fara fram umræður um hana.

1. umræða um fjárlögin verður á fimmtudaginn og hún heldur áfram á föstudaginn 13. september. 

Lögreglan er ávallt viðstödd við þingsetningarathöfnina.
Lögreglan er ávallt viðstödd við þingsetningarathöfnina. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert