Óljóst hvort stöðva megi ökutæki með ákeyrslu

Réttaróvissa er uppi um lögmæti þess að lögreglan stöðvi ökutæki með ákeyrslu og þá um leið óvissa um réttarstöðu lögreglumanna sem ökumanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra. Bent er á í júlí 2018 hafi vátryggingafélag hafnað bótaskyldu vegna tveggja tjóna þar sem heimild yfirmanns hafði verið veitt til stöðvunar ökutækis með ákeyrslu. Mat félagsins hafi verið að slíkt væri óbótaskylt tjón þar sem því hafi verið valdið af ásetningi. Embætti ríkislögreglustjóra hafi beint báðum málunum til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum og niðurstaða liggi fyrir í öðru málinu en í því hafi niðurstaða tryggingafélagsins verið staðfest. 

„Þá var lögreglumaður kærður og síðar ákærður í janúar sl. fyrir stöðvun ökutækis með ákeyrslu. Mjög brýnt er að fá úr því skorið hver er réttarstaða lögreglumanna í slíkum aðgerðum og tryggja öryggi þeirra og almennings. Að mati ríkislögreglustjóra er ekki rétt að setja lögreglumenn í þá aðstöðu sem réttaróvissan skapar.“

Vegna þessarar réttaróvissu hafi fyrirmæli verið gefin til lögreglumanna í sérsveit um að stöðva ekki ökutæki með ákeyrslu. „Yfirmönnum í sérsveit var gerð nánari grein fyrir málinu og útskýrt að fyrirmælin tækju ekki til sérsveitaraðgerða og áfram heimilt að beita slíkri aðferð þegar um vopnaða einstaklinga er að ræða. Auk þess sem áréttað var að fyrirmælin upphæfu ekki ákvæði almennra hegningarlaga um neyðarvörn og neyðarrétt.“

Þá segir að sérsveitarmenn kunni að vera ósammála niðurstöðu ríkislögreglustjóra í þessum efnum en það breyti ekki því að réttaróvissa sé uppi og ríkislögreglustjóri beri húsbóndaábyrgð gagnvart starfsmönnum sem starfi hjá embættinu. Honum beri skylda til að vernda hagsmuni þeirra auk þess sem fá þarf niðurstöðu um réttmæti slíkra aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert