Tilnefnd til Fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins

Sigurvegarinn hlýtur verðlaunagripinn Jarðarberið, sem hannaður er af Finni Arnari …
Sigurvegarinn hlýtur verðlaunagripinn Jarðarberið, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarssyni. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Bára Huld Beck og Birna Stefánsdóttir blaðamenn á Kjarnanum, Sagafilm, Sigríður Halldórsdóttir fréttamaður RÚV og ritstjórn Stundarinnar eru tilnefnd til Fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem verða veitt á Degi íslenskrar náttúru, 16. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.

Bára Huld og Birna eru tilnefndar fyrir að beina sjónum lesenda að neysluhegðun og þeim úrslitaáhrifum sem breyting á henni mun hafa í baráttunni við loftlagsbreytingar. Í þremur fréttaskýringum fjölluðu þær um fataneyslu almennings, neyslu dýraafurða og plastúrgang.

Sagafilm er tilnefnt fyrir þáttaröðina Hvað höfum við gert? sem sýnd var í RÚV. Þáttaröðin er afrakstur ítarlegrar rannsóknarvinnu, frumlegrar myndvinnslu og vandaðs vals á viðmælendum, segir í rökstuðningi dómnefndar.

Sigríður er tilnefnd fyrir að sýna fram á hversu útbreidd plastmengun er á Íslandi, á láði og legi, og að sýna fram á að ekki er allt sem sýnist þegar endurvinnsla plasts er annars vegar. „Þannig tekst Sigríði að undirstrika hvernig plastmengun er ekki aðeins vandamál sem snertir einstaklinginn og nærumhverfi hans, heldur einnig hvernig viðfangsefnið er hafið yfir landamæri,“ segir í rökstuðningi.

Ritstjórn Stundarinnar er tilnefnd fyrir ítarlega, myndræna og vandaða umfjöllun sína um loftslagsbreytingar undir yfirskriftinni Hamfarahlýnun. Í henni hafi verið að finna áhugaverðar frásagnir fólks sem hefur breytt lífsstíl sínum vegna breytinga á loftslagi sem eru hafnar eða yfirvofandi.

Dómnefnd skipa Kjartan Hreinn Njálsson, Ragna Sara Jónsdóttir og Valgerður Anna Jóhannsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert