Einn á gjörgæslu eftir bílveltu á Norðfjarðarvegi

Bílveltan varð á Norðfjarðarvegi austan við Norðfjarðargöng. Mynd úr safni.
Bílveltan varð á Norðfjarðarvegi austan við Norðfjarðargöng. Mynd úr safni. Ljósmynd/Vegagerðin

Ungur karlmaður var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir að bíll hans valt á Norðfjarðarvegi á áttunda tímanum í morgun. Þórhallur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, staðfestir í samtali við mbl.is að maðurinn er á gjörgæslu. 

Austurfrétt greindi fyrst frá slysinu, sem varð sem fyrr segir á Norðfjarðarvegi í Norðfjarðarsveit, austan við Norðfjarðargöng, til móts við reiðhöll hestamannafélagsins Blæs. 

Tildrög slyssins eru ekki kunn en Þórhallur segir að akstursaðstæður hafi verið með ágætum en vegurinn hafi verið blautur. „Bíllinn fór margar veltur og er ónýtur að við teljum.“  

Ökumaðurinn var einn í bílnum. Lögregla, sjúkralið og slökkvibíll fóru á vettvang og var útkallið umfangsmikið að sögn Þórhalls, enda um alvarlegt slys að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert