Í stuttbuxum á brún Skógafoss

Ljósmyndir sem sýna karlmann á stuttbuxum standandi í straumnum á brún Skógafoss hafa vakið mikla athygli facebooksíðu Baklands ferðaþjónustunnar.

Myndirnar birtust upphaflega á síðunni Iceland Q&A, en þar segir Nora McMahon, ferðamaðurinn sem þær tók: „Hvað sem þið gerið, ekki vera þessi bjáni. Ég hélt ég yrði vitni að dauða hans í þeim sjálfhverfa tilgangi að fá læk á Instagram.“ Kveðst hún jafnframt hafa vonað að hún yrði vitni að því er lögregla tæki á móti honum er hann kæmi aftur niður á jafnsléttu.

Hefði bara þurft smá stein til

Örlygur Örn Örlygsson, bílstjóri hjá Travice, var staddur með hóp ferðamanna við Skógafoss í gær þegar maðurinn stóð á fossbrúninni. Örlygur segir í samtali við mbl.is atburðinn hafa átt sér stað á áttunda tímanum í gærkvöldi. „Það hefði bara þurft smá stein til að hann hefði dottið og þá hefði hann bara farið þarna niður.“

Örlygur fékk afhent myndskeið af manninum uppi á fossbrúninni frá einum sem sá til þeirra. Hann segir manninn hafa verið í hópi fimm ungra erlendra ferðamanna sem höfðu komið á bílaleigubíl á staðinn. Hinir hafi ekki farið út á brúnina líkt og þessi en fjórir þeirra hafi þó farið undir fossinn þegar niður var komið.

„Þeir örguðu síðan eitthvað þarna undir fossinum,“ segir Örlygur. Þess má geta að þótt fólk sé vant að labba bak við Seljalandsfoss gerir maður slíkt ekki við Skógafoss, sem er mun straumharðari.

„Þegar þeir komu undan fossinum gaf ég mig á tal við hann og sagði að hann ætti nú aðeins að hugsa sinn gang því hann gæti drepið sig á þessu, þetta væri það hættulegt. Þá sagði hann að það skipti ekki máli, lífið væri bara áhætta,“ segir Örlygur og kveður manninum hafa fundist þetta fyndið.

Mikill mannfjöldi var við fossinn og segir Örlygur öðrum ferðamönnum, rétt eins og sér ekki hafa litist á blikuna og sjálfur hafi hann velt fyrir sér hvort ekki væri hægt að hringja í lögreglu eða eftirlitsaðila til að láta vita af þessu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert