Samkomulag um öryggi skemmtistaða

Aðilar að samkomulaginu um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði eru Reykjavíkurborg, …
Aðilar að samkomulaginu um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði eru Reykjavíkurborg, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Samtök aðila í ferðaþjónustu og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins en verkefnið hófst árið 2016. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Samkomulag um að bæta öryggi á og við skemmtistaði í Reykjavík var undirritað í dag, svo og samkomulag um að sporna gegn vændi á hótelum og gistiheimilum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að vel hafi gengið að fá starfsfólk skemmtistaða til að sækja námskeið og skrifa undir yfirlýsingu um að gera sitt til að fyrirbyggja allt ofbeldi á skemmtistöðum. Ofbeldi í hvaða mynd sem er eigi ekki að líðast; þar með talið kynferðisleg áreitni, vændi og mansal, sem og ofbeldi sem byggist á fordómum eða hatri, svo sem í garð innflytjenda eða hinsegin fólks.

Auk fræðslu fyrir dyraverði og starfsfólk felur samkomulagið í sér að farið er í úttektarheimsóknir á skemmtistaði. Markmiðið er að efla öryggi borgarbúa allra. Forsvarsmenn, rekstraraðilar og starfsfólk skemmtistaða, lögreglan, slökkviliðið og Reykjavíkurborg líta á sig sem samstarfsaðila enda eru hagsmunirnir sameiginlegir, aukið öryggi borgaranna.    

Einnig gerðu borgin, Samtök ferðaþjónustu (SAF), fyrir hönd hótela og gististaða í Reykjavík, og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með sér samkomulag um að vinna saman að því að uppræta vændi á  hótelum og gististöðum.

Markmið samkomulagsins er að skapa ofbeldislaust og öruggt umhverfi fyrir gesti og starfsfólk hótela og gististaða. Stefnt er að því að vændiskaup verði ávallt tilkynnt og vændisseljendum veittar upplýsingar um þann stuðning sem þeim stendur til boða.

Aðilar samkomulagsins eru meðvitaðir um að í mörgum tilvikum tengjast vændi og mansal órofa böndum þar sem vændisseljendur virðast oft ginntir til starfans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert