Von á slagveðursrigningu

Kort/Veðurstofa Íslands

Í fyrramálið er spáð útsynningi, 8-15 m/s með skúrum um sunnan- og vestanvert landið en bjartviðri á Austur- og Norðausturlandi. Spáð er austan 13-18 metrum á sekúndu og slagveðursrigningu aðfaranótt laugardags. 

„Nú í morgunsárið er hæg breytileg átt á landinu, dálítil væta norðanlands en annars úrkomulítið. Um hádegi verður komin suðvestanátt með skúrum suðvestantil á landinu. Í fyrramálið er spáð áfram útsynningi, 8-15 m/s með skúrum um sunnan- og vestanvert landið en bjartviðri á Austur- og Norðausturlandi. Hægari sunnanátt annað kvöld áður en gengur í austan 13-18 með slagveðursrigningu um nóttina. Hægari vindur á laugardagsmorgninum með rigningu um allt land og sums staðar talsverð rigning. Norðan og norðaustan 10-15 seinni partinn á laugardag. Aðgerðarlítið veður á sunnudag og skúrir á víð og dreif. Hiti yfirleitt 5 til 10 að deginum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga

Norðan 3-8 m/s og rigning norðan- og austanlands í fyrstu en annars suðvestlæg eða breytileg átt, 5-13, hvassast sunnanlands. Skúrir sunnan- og vestantil, annars úrkomulítið.
Suðvestan 8-15 á morgun og skúrir um sunnan- og vestanvert landið. Sunnan 5-10 seint annað kvöld.
Hiti 5 til 10 stig yfir daginn.

Á föstudag:
Suðvestan 5-13 m/s, hvassast S-til. Dregur úr vindi síðdegis. Skúrir, en bjart með köflum A-lands. Hiti 6 til 12 stig hlýjast á A-landi.

Á laugardag:
Suðaustan 13-20 m/s en mun hægari með morgninum. Norðan 8-15 síðdegis. Rigning, sums staðar talsverð. Hiti 3 til 11 stig, hlýjast með suðurströndinni.

Á sunnudag og mánudag:
Útlit fyrir vestlæga átt, 5-10 m/s með rigningu eða skúrum, einkum vestantil. Hiti 1 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Hægviðri, skýjað með köflum og hiti 3 til 10 stig yfir daginn.

Á miðvikudag:
Óvissar spár en líkur á austanátt og rigningu sunnanlands. Hiti 3 til 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert