Dáist að árangrinum sem náðst hefur á Íslandi

Angela Davis kveðst dást að þeim árangri, sem náðst hefur …
Angela Davis kveðst dást að þeim árangri, sem náðst hefur á Íslandi, sérstaklega í sambandi við jafnrétti kynjanna. KK Ottesen

„Ég hef alltaf dáðst að þeim ótrúlega árangri sem náðst hefur á Íslandi, sérstaklega hvað varðar jafnrétti kynjanna og að Ísland hafi verið í fararbroddi varðandi efnahagslegt jafnrétti kynjanna um árabil,“ segir baráttukonan Angela Davis, sem er á leið til Íslands að tala á #metoo-ráðstefnunni, sem haldin verður í Hörpu 17.-19. september, í viðamiklu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. „Um leið heldur kynferðislegt ofbeldi og áreitni samt áfram að vera vandamál á Íslandi. Það ætti að vekja þá til umhugsunar sem halda að náum við jafnrétti kynjanna í efnahagslífinu eða á sviði stjórnmála leysist öll vandamál okkar. Ísland er fullkomið dæmi um að í þessari baráttu þarf að taka á mörgum málum samtímis.“

Davis vakti heimsathygli á áttunda áratug 20. aldar þegar hún var sett í fangelsi í Bandaríkjunum og baráttu sína fyrir réttindum svartra. Henni barst stuðningur úr öllum heimshornum John Lennon og Yoko Ono og hljómsveitin Rolling Stones sömdu lög henni til stuðnings. 

Davis fagnar því að #églíka-hreyfingin hafi komið fram og segir að það hafi verið löngu tímabært að alþjóðleg vakning yrði um mikilvægi þess að takast á við kynferðislegar árásir og áreitni.

„Loksins eru karlar sem vitað er að hafa framið ofbeldi gegn konum farnir að finna fyrir áhrifunum,“ segir Davis og bætir við að það sé önnur spurning hvort áhrifin af hreyfingunni verði til frambúðar. „Ég held að ekkert sé gulltryggt. Sumir héldu að þrælahaldi hefði lokið í Bandaríkjunum árið 1863 eða 1865, en við erum enn að fást við leifar þess og eftirköst á okkar dögum. Þannig að ég verð að svara þessari spurningu með því að við verðum að halda áfram að vinna að þessum málum með aðgerðum, í fræðunum og í fjölmiðlum.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert