Raunstjórnmál en ekki sýndarstjórnmál

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda árið 2013 hafa orðið slíkar framfarir í íslensku samfélagi, bæði hjá hinu opinbera, í ríkisrekstrinum og hjá heimilunum í landinu, að fá dæmi eru um annað eins í sögunni. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins í dag.

Þetta sagði Bjarni að væru raunstjórnmál en ekki sýndarstjórnmál. Raunverulegur árangur hefði náðst. „Það eru raunstjórnmál, stjórnmál sem skipta raunverulegu máli, engin ásýndarstjórnmál, þegar kaupmáttur heimilanna vex ár eftir ár, þegar skuldir ríkissjóðs eru teknar niður um hundruð milljarða, þegar skuldahlutföllin eru orðin þau bestu í sögunni, þegar vextir eru þeir lægstu sem við höfum séð, þegar staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum er hin besta sem við höfum séð frá lýðveldisstofnun.“

Þetta væru raunveruleg mál en engin ásýndarmál. „Það þarf að gæta sín á því að umræða um að hér sé verið að slá ryki í augu fólks og reyna að láta hlutina líta vel út þá er verið að varpa skugga á raunveruleg góð verk. Og það verða ekki aðrir til þess að halda á lofti vel unnum verkum en við sjálf. Það eru ekki stofnaðar stjórnmálahreyfingar utan Sjálfstæðisflokksins til þess að benda á góð verk Sjálfstæðisflokksins.“

Þessi umræða kæmi meðal annars fram þegar jafnréttismál bæri á góma. Þar væru menn, að sögn Bjarna, algerlega úti í skurði. „Það er kannski tákn um breytta tíma að ég hef gert tillögu um konur í fleiri ráðherraembætti en aðrir formenn Sjálfstæðisflokksins samanlagt. Við erum bara í breyttu samfélagi.“ það ættu ekki að vera tíðindi að karlar og konur væru saman við borðið þar sem teknar væru ákvarðanir um samfélagið.

Spyrna við fótum gegn afturhaldsöflum

„Við stofnum stjórnmálaflokk, við komum saman, meitlum stefnu til þess að sjá framfarir eiga sér stað og við þurfum að spyrna við fótum þegar við finnum afturhaldsöflin reyna að halda aftur af okkur. Vegna þess að breytingar eru nauðsynlegar, við þurfum að vera hreyfiafl framfara sem stjórnmálafal og ekki efast þó breytingar geti falið í sér einhverja erfiðleika, þegar við finnum fyrir hindrunum þá þurfum við að halda ótrauð áfram.“

Bjarni ræddi einnig um deilur innan Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann. Sagði hann eðlilegt að tekist væri á um mál innan flokksins. Hins vegar hefði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að samþykkja pakkann og að hann uppfyllti þau skilyrði sem sett hefðu verið varðandi innleiðingu löggjafar frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum.

„Við höfum gríðarlega mikla hagsmuni af framkvæmd EES-samningsins en við megum ekki vera sofandi,“ sagði Bjarni og lagði áherslu á mikilvægi þess að fylgjast vel með málum sem kæmu frá Evrópusambandinu og setja í það aukinn mannskap og fjármuni. Það hefðu stjórnvöld verið að gera og áfram yrði haldið á þeirri leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert