Yfirbygging lögreglunnar alltof mikil

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is/Hari

Embætti ríkislögreglustjóra hefur verið í vörn að undanförnu. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur sætt gagnrýni og Ríkisendurskoðun hyggst gera úttekt á embættinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, segir starfslokasamning við Harald til skoðunar. Af því tilefni settist Morgunblaðið niður með Haraldi á skrifstofu hans.

Með harðari skráp en flestir

– Byrjum á gagnrýninni. Undanfarið hafa birst margar fréttir um þig og embættið þar sem þú ert heldur í vörn. Erfið mál hafa verið rifjuð upp og m.a. verið fullyrt að embættið hafi ofrukkað lögregluembætti vegna lögreglubíla. Fatamál lögreglu hafa dregist inn í umræðuna og því verið haldið fram að ríkislögreglustjóri hafi vanrækt að setja nýjar verklagsreglur, þrátt fyrir ákall þar um. Er þetta skipulögð herferð gegn þér?

„Ég hef rætt við marga, innan lögreglunnar og utan hennar, og allir sem ég hef rætt við – þ.m.t. mínir samstarfsmenn – eru sannfærðir um að tilgangurinn með þessari opinberu umræðu á þessu ári, árið 2019, sé að koma mér frá.“

– Af hverju? Hverjir vilja koma þér frá?

„Það eru eflaust ýmsir sem telja að þeir séu betur til þess fallnir en ég að vera í þessu embætti.“

Þarf stundum að grípa inn í

– Hvað um fullyrðingar um að hjá embættinu ríki ógnarstjórn?

„Mín persóna hefur verið í umræðunni en hún er greinilega að þvælast fyrir einhverjum. Í sumum tilvikum eiga í hlut starfsmenn þar sem stjórnendavald ríkislögreglustjóra hefur þurft að koma við sögu. Skiljanlega eru ekki allir starfsmenn sáttir við að forstöðumaðurinn þarf stundum að grípa inn í varðandi starfshætti og framkomu starfsmanna og einnig hvað varðar til dæmis stöðuveitingar. Það eru ekki allir sáttir við að fá ekki framgang og frama. Ég hef tekið eftir því í umræðunni að þetta er að birtast með orðum eins og ógnarstjórn og óttastjórn og fullyrðingum um meðvirkni yfirmanna þessa embættis. Þeir eru reyndar um 20 þannig að ógnarstjórnin hlýtur að koma frá bæði mér og þeim að einhverju leyti.

Þetta eru myndbirtingar orða sem eru notuð þegar stjórnendur þurfa oft á tíðum að taka á starfsmannamálum en eiga erfitt um vik að segja frá því opinberlega, nákvæmlega, hvað býr þar að baki. Það er vegna þess að við verðum víst að hlífa opinberum starfsmönnum frá því að segja allt um þeirra hagi. Því væri hins vegar öðruvísi farið í einkageiranum. Hið opinbera kerfi heldur hlífiskildi yfir starfsmönnum sem einkageirinn gerir ekki. Þetta gerir forstöðumönnum ríkisstofnana oft á tíðum erfitt fyrir. Þeir geta í raun ekki losað sig við óhæfa starfsmenn. Meðan þeir eru áfram starfandi valda þeir ólgu og óróa og stíga svo fram með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að á undanförnu,“ segir Haraldur og þagnar.

Þekkir hatursorðræðuna

„Ég er alinn upp við það sem sonur ritstjóra Morgunblaðsins, Matthíasar Johannessen, að sótt sé að mönnum. Ég þekki hatursorðræðuna um föður minn og fjölskyldu mína svo vel. Orðræða eins og sú sem ég er að upplifa núna hrín ekki eins á mér og hún myndi gera hjá öðru fólki. Það er vegna þess að ég er alinn upp í því umhverfi að faðir minn var níddur áratugum saman, bæði sem ritstjóri og skáld, og ég sem sonur hans varð fyrir barðinu á þessu níði áratugum saman og enn þann dag í dag er ég að lesa það og heyra, til dæmis í kommentakerfum og netmiðlum.“

– Hvernig birtist það?

„Það birtist í níði og rógi. Það birtist í því að minn frami sé allur byggður á pólitískum stöðuveitingum. Að ég hafi orðið lögmaður hjá ríkislögmanni, fangelsismálastjóri, varalögreglustjóri og ríkislögreglustjóri allt út á pólitík, allt út á Sjálfstæðisflokkinn, og allt út á föður minn. Rógberarnir koma af stað lyginni og áður en þú veist af er lygin orðin að sannleik. Það er það sem ég er að horfa upp á núna í sambandi við að ég sé ógnarstjórnandi.“

– Hverjir hafa sett þetta á flot?

„Það hefur borið á þessu reglulega í gegnum tíðina. Það var gríðarlega mikið um þetta í kringum Baugsmálin. Þegar við vorum að rannsaka Baugsmálin bar mikið á persónulegu níði á hendur mér og þeim sem voru hér að rannsaka þau mál.“

Áróðursvél var sett af stað

– Voru menn þá gerðir út af örkinni til að dreifa slíku efni?

„Það hvarflaði að mér. Mér var sagt að það hefði verið sett af stað áróðursvél sem mallaði á netmiðlum og í fjölmiðlunum. Ég veit það ekki. Ég get ekki sannað það og í raun þarf ég ekki að sanna það því mér er hreint sama. Það var svo sem skiljanlegt vegna þess að þar var um stóra rannsókn að ræða gagnvart aðilum sem höfðu mjög mikilla hagsmuna að gæta og eðlilegt í sjálfu sér. Þannig að ég gat ekki fundið að því opinberlega og hef aldrei gert þar til núna að ég bendi á þetta. Ég er sem sagt alinn upp við þetta og hef búið við þessa áróðursvél áratugum saman.“

– Hvað finnst þér um það að þessum aðferðum sé beitt á Íslandi?

„Eins og ég sagði í upphafi hef ég nú ýmsa fjöruna sopið, af ýmsum ástæðum. Ég held að Ísland skeri sig ekkert úr hvað þetta varðar, að reynt sé að koma mönnum frá með svívirðilegum aðferðum í valdatafli, hagsmunagæslu og pólitík, það er mannlegt þótt það sé ekki stórmannlegt. Ég er búinn að vera í þessu embætti í 22 ár og hef verið embættismaður í erfiðum hlutverkum í hátt í 40 ár,en hef ekki fyrr en á þessu ári þurft að ganga í gegnum árásir af þeim toga sem við erum að horfa á innan kerfisins.“

– Án þess að rjúfa trúnað gætirðu sagt hvernig þetta birtist innan kerfis? Verðurðu var við baktal um þig?

„Já. Það eru sagðar ljótar sögur af mér persónulega, sögur sem eru búnar til og mínir nánustu samstarfsmenn kannast ekki við. Þær koma frá fólki sem ég hef þurft að taka á, oft á tíðum, og á harma að hefna. Rógberar magna upp sögur og dreifa þeim og áður en maður veit af er lygin orðin að staðreyndum. Síðan er byggt á þeim svokölluðu staðreyndum og haldið áfram veginn á sömu braut.“

– Hvaða áhrif hefur það haft á starfsemina að embættið hafi verið undir slíkum árásum?

„Þetta hefur niðurbrotsáhrif á allt mitt frábæra samstarfsfólk sem reynir að láta þessi hjaðningavíg ekki hafa áhrif á starfsemi embættisins. Þetta hefur slæm áhrif á mína nánustu fjölskyldu og vini sem hafa margoft óskað eftir því við mig að ég hætti sem ríkislögreglustjóri til þess að þau fengju frið fyrir níði og rógi um mína persónu. Og ég hef hugsað með mér að þetta sé nú að verða ágætt og að það sé nú ef til vill mitt hlutverk að bæði hlífa þeim og fara að þeirra óskum um að hætta þessu. Rógburðurinn er víða. Ég hef líka verið kallaður rasisti, nasisti og fasisti. Mér er í fersku minni að doktor við Háskóla Íslands skrifaði á facebooksíðu fyrir nokkru að ég væri bæði rasisti og fasisti.“

– Hvert var tilefnið?

„Það er kannski vegna þess að ég er einhvers konar andlit fulltrúa þeirra sem eiga að halda uppi réttarríkinu og verða fyrir barðinu á svona orðræðu. Það skýrir hins vegar ekki þá orðræðu sem á sér stað innan úr lögreglunni núna nema varðandi það sem ég var að segja áðan. Ég held að þeir sem tala um óttastjórn og ógnarstjórn, og saka menn um fasisma, nasisma og rasisma, átti sig ekki á merkingu þessara orða í nútímanum. Ég held enda að þessi orð séu merkingarlítil ef þau hafa þá nokkra merkingu lengur. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, vék að þessari orðræðu í setningarræðu sinni á Alþingi en orð hans eiga vel við orðræðuna sem er í gangi gagnvart mér opinberlega úr lögreglunni.“

– Nú hefur komið fram í fréttum að stjórnir Lögreglufélags Eyjafjarðar og Lögreglufélags Þingeyinga lýsi yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna um að efna beri til úttektar á ríkislögreglustjóra. Þá eru stjórnirnar sagðar fagna frumkvæði dómsmálaráðherra í málinu og þrýstingi lögreglustjóra landsins á að úttektin verði unnin. Af slíkum fréttum má skilja að óánægja sé með störf þín?

Skiptar skoðanir um hlutverkið

„Allt frá stofnun embættis ríkislögreglustjóra hafa verið mjög skiptar skoðanir um hlutverk þess og stöðu í lögreglukerfinu. Það voru allmargir áhrifamenn innan lögreglu – þá er ég að tala um yfirmenn lögreglu – sem voru þeirrar skoðunar að það ætti ekki að setja þetta embætti á fót. Síðan voru þeir þeirrar skoðunar að embættið ætti að vera pínulítil stjórnsýslueining. Og aðrir voru á þeirri skoðun að embættið ætti ekki að fara með stjórn lögreglumála. Síðan eru liðin rúm 20 ár frá því embættið var stofnað og á þeim tíma höfum við farið í gegnum tímabil þar sem mismikill ágreiningur hefur birst um embættið innan lögreglunnar. Það hafa verið átök um hvert hlutverk embættisins eigi að vera en það var sérstaklega áberandi fyrir nokkrum árum. Á þessum 22 árum hefur þessi umræða gosið upp með ákveðnu millibili.“

– Hefur umræðan farið fram innan ykkar raða, án þess að fara upp á yfirborðið?

„Já.“

– Hefur verið undiralda?

„Já. Það hafa verið átök og skiptar skoðanir um hlutverk embættisins allar götur frá stofnun þess. Það hefur yfirleitt ekki birst opinberlega með þeim hætti sem nú er. Átökin sem birtast almenningi núna eru meðal annars út af því að ég hef haldið því fram – hef að vísu farið varlega í það í gegnum tíðina – að það eigi að stokka upp kerfi lögreglunnar í landinu. Að stofna eigi nýtt embætti lögreglustjóra yfir landið allt og endurraða verkefnum og starfsmönnum inn í þetta nýja embætti. Og að það eigi að fá utanaðkomandi erlendan aðila, með sérfræðiþekkingu, til að gera heildarúttekt á lögreglunni og koma með tillögur um hvernig framtíðarlögreglan, með tilliti til verkefna framtíðarlögreglu, eigi að líta út.“

Hægt að fara betur með skattfé

– Nú eru ellefu embætti með lögreglumenn á launaskrá; níu lögregluembætti, héraðssaksóknari og ríkislögreglustjóri. Hvernig sérðu þetta kerfi fyrir þér eftir 10 ár ef þér verður að ósk þinni?

„Ef hugmyndir mínar myndu rætast, með einni eða annarri birtingarmynd, væri einn lögreglustjóri yfir landinu og áherslur þess embættis færu eftir verkefnum á hverjum tíma, sveigjanleika og þörfum eftir landshlutum. Mannafli og um leið skattfé almennings myndi þá nýtast betur en nú er.“

– Fara miklir fjármunir í yfirstjórn hjá svo mörgum embættum?

„Já, nú fara miklir fjármunir í hátimbraða yfirmannabyggingu í landinu. Þar má telja fjölda lögreglustjóra, yfirlögregluþjóna, aðstoðaryfirlögregluþjóna, aðalvarðstjóra, varðstjóra, lögreglufulltrúa og svo mætti áfram telja. Vandinn við fyrirkomulagið í dag er að það eru of mikil átök og núningur um fjárveitingar og völd og það er of mikill sérhagsmuna- og eiginhagsmunaþrýstingur í þessu kerfi. Ef lögreglan væri eitt lið, eitt embætti vil ég segja, þá væri ekki þessi núningur og valdabarátta og togstreita um fé og verkefni eins og við höfum orðið vitni að. Þá ekki aðeins að undanförnu eins og ég sagði áðan, heldur hefur þetta verið allt frá upphafi embættisins fyrir 22 árum.

Það má ekki gleyma því að ég hafði sem ungur varalögreglustjóri í Reykjavík þá skoðun að það ætti að fækka lögreglustjórum og sýslumönnum í landinu, sem þá voru 27 talsins, og aðgreina sýslumannsverkefni frá lögreglustjórn og tollstjórn. En eins og menn kannski muna var þetta allt á sömu hendi sýslumanns nema hér í Reykjavík. Ég fékk ekki miklar undirtektir við þeim hugmyndum en þetta gekk nú samt eftir. Sýslumönnum og lögreglustjórum var fækkað og lögreglu- og tollstjórn aðskilin frá embættum sýslumanna. Þegar litið er til baka má segja að við stefnum í þá átt að gera lögregluna að einu embætti, þannig að hún verði eins og ríkisskattstjóri og ríkistollstjóri. Áður voru nokkrir skattstjórar og tollstjórar um landið en nú eru þetta embætti hvort um sig.“

Nýtist almenningi sem best

– Það er væntanlega ekki sársaukalaust fyrir menn þegar embætti eru sameinuð. Menn fá þá kannski ekki þær vegtyllur sem þeir sækjast eftir?

„Lögreglan hefur takmarkað fé, það fé sem skattborgararnir leggja af mörkum í ríkissjóð. Það fé verður fyrst og fremst að nýtast þeim til heilla. Almenningi í landinu og skattborgurum en ekki yfirmannabyggingu sem stórt hlutfall fjárveitinga lögreglunnar rennur til. Þess vegna m.a. er ég að tala um hvernig best megi nýta skattfé.“

– Hafa breytingar á skipulagi lögreglunnar leitt til fjölgunar á „silkihúfum“?

„Já. Ég held að ég geti fullyrt að þótt við höfum horft á sameiningu lögregluliðanna hafi silkihúfunum, eins og þú orðar það, frekar fjölgað en fækkað. Fjöldinn hefur að minnsta kosti ekki breyst í takt við fækkunina.“

Myndi fækka með sameiningu

– Hvers vegna?

„Það er að hluta til vegna launakjara og að hluta til vegna þess að við erum með sjálfstæða lögreglustjóra. Í flestum umdæmum er lögreglustjóri, yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn og aðrir yfirmenn. Með einum lögreglustjóra væri unnt að fækka silkihúfunum, eins og þú segir, en það gerist held ég ekki nema með þeirri aðferðafræði að nýtt embætti verði sett á fót og núverandi embætti lögð niður eins og í Svíþjóð. Sagan hjá hinu opinbera segir að það gefi ekki góða raun að sameina ríkisstofnanir með ólíka menningu. Þá er ég til dæmis að vísa til þess þegar rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður og embætti ríkislögreglustjóra var stofnað upp úr rannsóknarlögreglu ríkisins. Það tók mig á annan áratug að reyna að koma á fót nýju embætti ríkislögreglustjóra og það hefur verið torsótt og erfið aðferð. Þess vegna segi ég að það er að öllu leyti heppilegra að búa til nýja stofnun frá grunni.“

Treystir ríkisendurskoðanda

– Með umræðu um bílamálin var gefið í skyn að ríkislögreglustjóri ætti við rekstrarvanda að etja. Mun úttekt ríkisendurskoðanda leiða hið gagnstæða í ljós?

„Ég veit ekki fyrirfram hvað mun koma út úr úttekt ríkisendurskoðanda á embættinu. Ég treysti hins vegar núverandi ríkisendurskoðanda og veit að hann mun vinna faglega að úttekt ríkisendurskoðunar.“

– Hver eru viðbrögð þín við því að þessi úttekt fari fram?

„Ég er mjög ánægður með að það fari fram stjórnsýsluúttekt á embættinu með það í huga að nálgast endamarkið sem er ein lögreglustofnun. Því ég held að menn átti sig á því að með þeirri valdabaráttu og samkeppni um peninga og völd og skattfé, sem hefur birst mér á undanförnum áratugum, muni menn ekki ná tilætluðum árangri. Ef úttektin verður til þess að gerðar verði breytingar á skipan lögreglunnar í landinu í þá veru sem ég nefndi verð ég ánægður.“

– Hefurðu sagt þitt síðasta orð?

„Það er efni í sérstakt viðtal ef til starfsloka kemur vegna þessara ásakana. Það myndi kalla á annað og dýpra viðtal um það sem hefur gengið á á bak við tjöldin,“ segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Starfslokasamningur hefur komið til umræðu

– Nýr dómsmálaráðherra hefur sagt til skoðunar að bjóða þér starfslokasamning. Kemur til greina af þinni hálfu að undirrita slíkan samning á þessu ári?

„Ég á þrjú ár eftir af mínum skipunartíma, þetta er fimmta tímabilið sem ég er skipaður til fimm ára, þ.e.a.s. ég hef verið hér í 22 ár og á þrjú ár eftir af skipunartímanum. Ég ætla mér ekki að vera lengur í þessu starfi en það, að minnsta kosti, en ef núverandi ráðherra myndi vilja gera starfslokasamning á þeim nótum sem mér myndi hugnast, þá myndi ég skoða það í fullri alvöru. En það leysir engan vanda að ég hverfi af vettvangi. Það er vegna þess að ríkislögreglustjórinn Haraldur Johannessen og persóna hans er ekki höfuðvandinn heldur er vandinn kerfislægur. Fyrst og fremst stjórnskipulag lögreglunnar og stofnanauppbygging en kannski líka sá að það eru of margir stjórnendur hjá hinu opinbera sem veigra sér við því að taka á erfiðum málum.“

Hvernig málum?

„Starfsmannamálum til dæmis. Ég hef horft á of marga stjórnendur í gegnum árin kaupa sér frið og enda eftir vinsældaleiki undir sínum undirmönnum. Ég hef séð of mörg dæmi um þetta. Vinnuumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana er orðið mjög erfitt. Þeir eiga mjög erfitt með að beita sér. Lagaumhverfið er þannig að þeir eiga oft á tíðum erfitt með að ná fram því sem þeir telja ákjósanlegt.“

– Hvernig vandamál eru þetta hjá starfsmönnum sem ekki er tekið á. Geturðu tekið dæmi?

„Það eru alls kyns agavandamál, eins og ég nefndi áðan.“

– Eru menn ekki að sinna starfi sínu vel?

„Ég nefni til dæmis að hjá þessu embætti hafa komið upp erfið starfsmannamál. Þegar tekið er á slíkum málum, en án þess að ég megi fara út í einstök mál, veldur það ekki mikilli gleði hjá viðkomandi starfsmönnum. Það þarf hins vegar að gera það og forstöðumaður sem ætlar sér að stjórna sínu embætti þarf að hafa bein í nefinu til þess. Ef hann er í vinsældaleik missir hann fljótt stöðu sína sem stjórnandi en þeir stjórnendur sem ætla sér virkilega að stjórna sínum embættum, og taka á málum sem koma upp, eru oft kallaðir ógnar- og óttastjórnendur.“

Spilling eigi ekki að líðast innan lögreglu

• Ríkislögreglustjóri segir gagnrýni sína á framgöngu lögreglumanna eiga þátt í undiröldunni • Gera þurfi úttekt á menningu sérsveitarinnar • Vísar fullyrðingum um bíla- og fatamál á bug Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að með einu lögregluembætti myndi togstreita og hreppapólitík innan lögreglunnar verða hverfandi. Þá myndi betri nýting fjármuna birtast í öflugri löggæslu.

Embætti ríkislögreglustjóra hafi gengið í gegnum mikinn niðurskurð allt frá efnahagshruninu. Síðan hafi löggjafinn bætt við verkefnum hjá embættinu sem aftur hafi haft í för með sér að getan til að sinna verkefnunum hratt og örugglega hafi að einhverju leyti minnkað.

„Ég hef líka bent á að ekki eigi að líða spillingu innan lögreglunnar. Hluti af umræðunni sem er að brjótast fram núna er kannski einnig vegna þeirrar afstöðu minnar. Ég hef til dæmis bent á að það fari ekki saman að lögreglumenn séu meðfram starfi sínu í pólitísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki saman.“

Séu ekki líka í einkarekstri

– Hefur það verið að birtast að undanförnu að lögreglumenn séu í þessu aukahlutverki?

„Já, það eru dæmi um það. Án þess að ég vilji nefna tilvikin geta menn skoðað þau og þeir sem þekkja til vita um hvað ég er að tala. Ég hef líka rætt um að það fari ekki saman að vera lögreglumaður og vera í einkarekstri og jafnvel að selja búnað til lögreglunnar eða að vera í ferðaþjónustu. Það á að vera hafið yfir allan vafa að lögreglumenn séu ekki að gæta eigin hagsmuna. Þetta hef ég rætt um innan lögreglunnar og það eru ekki allir sáttir við þessa orðræðu mína.“

Skrifa ráðherra bréf

Það er mat Haraldar að hluti af gagnrýninni á embættið, sem komið hafi upp á yfirborðið að undanförnu, stafi af óánægju innan sérsveitar með stjórnarhætti ríkislögreglustjóra og yfirmanna embættisins. „Þeir hafa skrifað dómsmálaráðherra bréf með alls kyns umkvörtunarefnum og við yfirmennirnir höfum svarað dómsmálaráðuneytinu. Ég hef til skoðunar að fram fari úttekt á menningu sérsveitarinnar en einnig er tímabært að marka framtíðarstefnu fyrir hana, hversu fjölmenn hún á að vera og hvert hlutverk hennar og geta á að vera. Sérsveit er kannski sú eining innan lögreglunnar sem þarf hvað mesta og styrkasta stjórn. Þar geta starfsmenn ekki gengið fram eins og þeim hentar. Ég hef velt því fyrir mér hvort óánægja sérsveitarmanna með ríkislögreglustjóra stafi kannski af því að þeir fái ekki öllu sínu framgengt. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki sé tímabært að fram fari athugun fagaðila á þeim menningarafkima sem ég held kannski að sérsveitin sé,“ segir Haraldur.

Alrangar fullyrðingar

Ríkislögreglustjóri er eigandi allra ökutækja lögreglunnar.

Haraldur segir aðspurður að borið hafi á alvarlegum rangfærslum varðandi svonefndan bílasjóð. Fullyrt hafi verið að ríkislögreglustjóri hafi ofrukkað önnur lögregluembætti fyrir þjónustu bílamiðstöðvar. Það sé alrangt. Markmiðið sé að sannfæra almenning um óráðsíðu í rekstri embættisins, að embættinu sé illa stjórnað og að fjárveitingar til þess skili ekki þeim árangri sem ætlast er til.

„Það er ekki aðeins fullyrt að ég sé ógnarstjórnandi heldur er nú einnig fullyrt að ég sé alveg ómögulegur rekstrarmaður,“ segir Haraldur. Þess má geta að dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja niður bílamiðstöðina og er starfshópur að yfirfara framtíðarskipan mála.

Fram kemur á vef ríkislögreglustjóra að í fjárlögum 2019 sé gert ráð fyrir að rekstur lögreglubifreiða skili ríflega 200 milljón króna afgangi í ríkissjóð.

Haraldur segir gagnrýni á aðbúnað lögreglumanna, hvað varðar fatnað, sama marki brennda. Almennt sé fatnaður og búnaður íslenskra lögreglumanna vandaður. Síðustu áratugi hafi orðið grundvallarbreyting til hins betra.

Það hafi hins vegar sýnt sig að útboð séu oft ekki til þess fallin að greiða fyrir lausn í fatamálum.

Ísland lítill markaður

„Íslenska lögreglan er örmarkaður þegar kemur að útboðum og í raun ætti lögreglan að taka virkari þátt í útboðum lögregluliðanna á Norðurlöndunum eða að fá að vera í innkaupasambandi beint við þau. Útboðsmál hafa verið erfiðleikum háð en það hefur ekki skort á vilja embættisins í þeim efnum, síður en svo.“

Loks vísar Haraldur á bug þeirri gagnrýni að embættið hafi dregið að setja verklagsreglur.

„Embætti ríkislögreglustjóra hefur á síðustu 22 árum gefið út ógrynni verklagsreglna sem voru ekki til fyrir stofnun þessa embættis. Það má alltaf bæta og endurnýja verklagsreglur eftir því sem lögreglan þróast, það er gert og það er unnið að því. En að nefna þetta sem sérstakt vandamál er satt best að segja afar sérkennilegt,“ segir Haraldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert