Íslendingur hlaut Emmy fyrir 360° myndefni

Aron Hjartarson (t.v.) ásamt James Razzall, forseta IA deildar Framestore …
Aron Hjartarson (t.v.) ásamt James Razzall, forseta IA deildar Framestore í Bandaríkjunum. Myndin er tekin við athöfnina í gær. Verðlaunagripurinn er svo auðvitað fyrir miðju.

Aron Hjartarson hlaut Emmy-verðlaun í gærkvöldi ásamt sínu teymi hjá breska kvikmyndafyrirtækinu Framestore. Verðlaunin hlaut teymið fyrir hluta úr heimildarmyndinni Free Solo en sá hluti er skotinn í 360 gráðum. Heimildarmyndin er framleidd af National Geographic.

Aron er listrænn stjórnandi (e. excecutive creative director) hjá Framestore og var yfir þeim hluta Free Solo sem Framestore kom að. Því er hans þáttur í verðlaununum stór en verðlaunin hlaut teymið fyrir framúrskarandi skapandi árangur í gagnvirkri miðlun innan óskrifaðs atriðis (e. Outstanding Creative Achievement In Interactive Media Within An Unscripted Program).

„Það var rosalegt, hálfpartinn ótrúlegt,“ segir Aron í samtali við mbl.is. Verðlaunin komu honum og hans teymi mikið á óvart. Aron er búsettur í Los Angeles og hefur starfað hjá Framestore síðan 2010.

El Capitan er í Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu. Alex klifrar þar …
El Capitan er í Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu. Alex klifrar þar í þeim hluta myndarinnar sem Aron og félagar sáu um. AFP

Ævintýri í Yosemite-þjóðgarðinum

„Myndin fjallar um klifrarann Alex Honnold sem klifrar á El Capitan án þess að nota reipi eða önnur hjálpartæki. Við þurftum að fara upp í Yosemite-þjóðgarðinn hérna í Kaliforníu og fara með 360 gráða myndavél en það eru frekar stórir gripir og erfiðir í meðförum. Myndatökumaðurinn þurfti að klifra með þá myndavél og eltast við Alex Honnold þegar hann var að klifra. Þannig að þetta var dálítið ævintýri,“ segir Aron. 

Aron og teymi hans dvöldu í um viku við tökur í þjóðgarðinum. „Við vorum náttúrlega algjörir græningjar þegar kom að fjallaklifri þannig að það var dálítið sjokk að sjá hvað þurfti að gera. Líka það að mæta á tökustað og það fyrsta sem þú lest þegar þú ert að fara að sofa fyrsta kvöldið er að þú eigir að forðast að láta birni éta þig á nóttunni. Það var dálítið fyndið,“ segir Aron og hlær.

Þau hjá Framestone eru frumkvöðlar í 360 gráða kvikmyndatækninni. „Við erum ákveðnir brautryðjendur í akkúrat þessu. Við erum búnir að vera að vinna mikið fyrir Facebook og Google. Við byrjuðum á þessu fyrir nokkrum árum og fundum alls konar aðferðafræði til þess að láta þetta virka. National Geographic var búið að heyra af því og setti sig í samband við okkur fyrir þetta verkefni,“ segir Aron. 

Áhorfendur geta fylgt Alex í sýndarveruleika

Tæknin er í mótun og er í raun fremur ný af nálinni. Til þess að horfa á myndina eins og henni er ætlað að birtast er best að vera með sýndarveruleikagleraugu. Þó geta þeir sem ekki eiga slíkt flett henni upp á Youtube og horft á hana í símtæki með heyrnartólum.

„Það er aðeins meira gettó en að nota sýndarveruleikagleraugu en þetta gefur manni alla vega góða hugmynd um það hvernig þessi hluti er,“ segir Aron. 

„Með því að horfa á þennan hluta myndarinnar færðu tækifæri á að fara með Alex Honnold upp El Capitan sem er kílómetri á hæð að klifra með honum upp í sýndarveruleika.“

Elíta fjallaklifrara

Aron segir magnað að hafa fengið að vinna með þeim sem komu að heimildarmyndinni sjálfri og þá sérstaklega klifraranum Alex sem er heimsþekktur fyrir sína færni. 

„Þeir sem koma að myndinni eru allir elíta af fjallaklifrurum, með bestu fjallaklifurs-kvikmyndatökumönnum á plánetunni. Það var frábært að kynnast þeim og fá að kynnast þeirra heimspeki. Svo var auðvitað frábært að kynnast Alex sjálfum, hann er alveg einstakur.“

Heimildarmyndin kom út í fyrra og það tók Aron og hans teymi um ár að vinna sinn hluta. 

Það er dálítið erfitt að vinna svona myndir almennilega. Þær eru ekki alveg eins meðfærilegar og aðrar kvikmyndir en það var líka verið að vinna heimildarmyndina á sama tíma svo okkur lá voðalega lítið á. Við höfðum dálítinn tíma til að gera hlutina vel en það skiptir rosalega miklu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert