Torfið á Tyrfingsstöðum fær nýtt líf

Fjöldi fólks lagði leið sína að Tyrfingsstöðum á Kjálka í …
Fjöldi fólks lagði leið sína að Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði, í blíðskaparveðri á dögunum. Og allir fengu lummur í eldhúsinu. Ljósmynd/Byggðasafn Skagfirðinga

„Það hefur verið gaman að sjá gamla bæinn lifna við og öðlast nýjan tilgang. Á sínum tíma stóð til að jafna hann við jörðu en sem betur fer varð ekkert úr því,“ segir Kristín Jóhannsdóttir á bænum Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði, en á tveimur tímum tók hún á móti hátt í 150 manns í gamla torfbænum og bakaði lummur ofan í mannskapinn.

Um var að ræða opið hús laugardaginn 31. ágúst sl. í tengslum við Menningarminjadaga Evrópu 2019, en að viðburðinum stóðu Byggðasafn Skagfirðinga og Fornverkaskólinn, auk ábúenda á Tyrfingsstöðum, þeirra Kristínar og Sigurðar M. Björnssonar, sambýlismanns hennar.

Gestum var boðið að ganga um húsin og fræðast um þá uppbyggingu sem hefur staðið yfir á Tyrfingsstöðum frá árinu 2007. Hefur hún farið fram með námskeiðahaldi og kennslu í torf- og grjóthleðslu og grindarsmíði.

Námskeiðin hafa notið mikilla vinsælda og er búið að útskrifa um 300 nemendur, bæði íslenska og erlenda. Fornverkaskólinn hefur staðið fyrir námskeiðunum, en um er að ræða samstarfsverkefni Byggðasafnsins, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Hólaskóla. Verkefnastjóri skólans er Bryndís Zoega og hefur Helgi Sigurðsson torfhleðslumaður staðið í fararbroddi kennslunnar, auk fleiri. Nokkrir smiðir hafa komið að kennslunni, einkum Bragi Skúlason.

Mörg handtökin eftir

Á Tyrfingsstöðum er nú komin heilleg bæjarmynd, með íbúðarhúsi, fjósi, hlöðu, fjár- og hesthúsum og réttum, að því er fram kemur á vef Byggðasafnsins. Á opna húsinu sl. laugardag sagði Sigríður Sigurðardóttir, fv. safnstjóri Byggðasafnsins, frá tilurð Fornverkaskólans og verkefninu á Tyrfingsstöðum, sem hún átti stóran þátt í að koma af stað á sínum tíma. Samstarfsverkefnið heldur áfram og námskeiðin hjá Fornverkaskólanum, enda mörg handtökin eftir, eins og að ganga frá þökum húsanna og hleðslum og ljúka við innréttingar innan dyra, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig stendur til að mála baðstofuna eins og hún var á árum áður.

Hver einasta lumma hvarf!

Eins og áður sagði stóð Kristín í ströngu við lummubakstur í gamla bænum. Þetta voru nokkur tímamót því ekki hafði verið kveikt á eldavél í torfbænum í ein 50 ár, eða síðan Kristín og fjölskylda fluttu frá Tyrfingsstöðum til Sauðárkróks árið 1969. Hún hafði þá búið á bænum nær óslitið frá fæðingu, 1944, en Kristín er einkadóttir hjónanna Jóhanns Eiríkssonar og Freyju Ólafsdóttur, sem bjuggu á Tyrfingsstöðum í rúm 40 ár. Fyrir nokkrum árum flutti Kristín aftur að Tyrfingsstöðum.

Kristín Jóhannsdóttir stóð í ströngu við baksturinn.
Kristín Jóhannsdóttir stóð í ströngu við baksturinn. Ljósmynd/Byggðasafn Skagfirðinga

„Ég hrærði góðan slurk af deigi um morguninn og bakaði lummurnar á stórri pönnu, enda veitti ekki af. Þetta hvarf allt saman, hver einasta lumma. Það var virkilega gaman að fá allt þetta fólk, sem hafði orð á því hve gott var að finna lummulyktina þegar það gekk í bæinn,“ segir Kristín, en hún festi kaup á nýrri viðarvél til að hafa í eldhúsi gamla bæjarins. Ekki þótti ráð að gera gömlu eldavélina upp, enda var hún tengd við miðstöð sem ekki er lengur til staðar. „Ég þarf ekki að fara lengra en í Silfrastaði til að fá kubba í viðarvélina, þar er af nógu að taka.“

Hún hefur einnig gripið í baksturinn heima fyrir í íbúðarhúsinu á Tyrfingsstöðum, sem stendur skammt frá torfbæjunum, þegar útskrift fer fram hjá Fornverkaskólanum. Þá hefur hún boðið heim í útskriftarkaffi þegar nemendur hafa fengið skírteini sín í hendur.

„Ég hef einnig bakað lummur í byrjun hvers námskeiðs og fært nemendum og kennurum, til að koma þeim í gamla fílinginn. Við höfum reynt að gera þetta skemmtilegt,“ segir Kristín að endingu, kampakát með samstarfið við Fornverkaskólann og Byggðasafnið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert