„Heimavinna“ og áskoranir framundan

Ang­el Gurría, framkvæmdastjóri Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar Evrópu, OECD.
Ang­el Gurría, framkvæmdastjóri Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar Evrópu, OECD. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árangur Íslands í efnahagsmálum undanfarin ár er eftirtektarverður að mati Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD. Gurría fór yfir stöðu Íslands á kynningarfundi þegar ný skýrsla OECD um Ísland var kynnt í dag.

Þrátt fyrir að margt sé í blóma hér á landi; lífslíkur með þeim mestu innan ríkja OECD, kynjajafnrétti og grænn hagvöxtur, sagði Gurría að það væru ýmsar áskoranir framundan. 

„Eða eigum við að kalla það heimavinnu?“ spurði Gurría á fundinum.

Nefndi hann í því samhengi áskoranir sem ferðamannaiðnaðurinn tækist á við, og hefði þurft að takast á við, í kjölfar gjaldþrots WOW air í vor. Gurría sagði að hagkerfið væri að kólna en OECD spáir 0,2% hagvexti á Íslandi í ár.

Hann segir að hagkerfið sé að kólna vegna spennu í heiminum og nefndi í því samhengi tollastríð Bandaríkjanna og Kína. 

Gurría kallaði gjaldþrot WOW air „atvikið“ þegar hann ræddi við blaðamann að lokinni kynningu. Staðan væri alls ekki slæm þrátt fyrir að auðvitað væri alltaf slæmt að jafn stórt fyrirtæki og WOW var færi á hausinn.

Hefði verið mjög slæmt ef WOW hefði verið eina flugfélagið

„Ef þið hefðuð bara haft eitt flugfélag að fljúga hingað væruð þið í vondum málum,“ sagði Gurría við blaðamann að fundi loknum. Hann nefndi að það væri vitanlega ekki staðan en alls fljúga fleiri en 20 flugfélög til og frá Keflavíkurflugvelli. 

Gurría sagði að nú kæmi í ljóst hvort og þá hvernig ferðamannaiðnaðurinn myndi breytast. Spurningin væri hvort ferðamönnum myndi fækka, eða draga úr fjölgun þeirra, og í staðinn kæmu færri sem eyddu meiri tíma og peningum hér á landi.

„Þið hafið grætt á því að vera millilending á milli Ameríku og Evrópu. Nú er spurning hvort það sé hægt að breyta því í lengri dvalir og það er mikilvægt að þjónustan sé í lagi,“ sagði Gurría.

Hann tók dæmi af þjónustu sem honum þykir ekki í lagi og sagði að væri nánast orðin klisja í umræðunni. „Stundum kostar meira að fara á flugvöllinn en flugmiðinn sjálfur. Þetta er líklega ýkt dæmi,“ sagði Gurría og bætti við að þrátt fyrir ýkju væri þetta nærri lagi.

Þetta ætti við um ýmsa þjónustu í tengslum við ferðamannaiðnaðinn, þar sem mikil sprenging hefði orðið í kjölfar fjármálakreppu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert