Ljósið annist endurhæfingarþjónustu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera þriggja ára þjónustusamning við Ljósið um endurhæfingarþjónustu við fólk sem greinst hefur með krabbamein. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru 220 milljónir króna merktar Ljósinu sem til þessa hefur verið rekið fyrir söfnunarfé og styrki frá ári til árs. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Ljósið var formlega stofnað árið 2006. Markmið þess frá upphafi hefur verið að sinna endurhæfingu og veita stuðning þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra. Ljósið er viðurkennd heilbrigðisstofnun samkvæmt skilgreiningu laga og heyrir undir eftirlit Embættis landlæknis. Þjónusta Ljóssins er þverfagleg og einstaklingsmiðuð og felst m.a. í iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu, næringarráðgjöf og félagslegri virkni. Fjármögnun Ljóssins hefur hingað til byggst á styrkframlagi frá Vinnumálastofnun og heilbrigðisráðuneytinu til eins árs í senn og söfnunarfé eins og áður segir.

„Árlega sækja á annað þúsund einstaklinga sér þjónustu hjá Ljósinu. Því er mikið í húfi að tryggja rekstrargrundvöll þessarar mikilvægu þjónustu þannig að notendur og starfsfólk búi við það lágmarksöryggi sem verður að vera fyrir hendi í svona starfsemi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í fréttatilkynningu.

Nú stendur fyrir dyrum viðamikil úttekt á endurhæfingarþjónustu í landinu sem verður grundvöllur að stefnumótun á þessu sviði. Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra verður Sjúkratryggingum Íslands falið að gera þjónustusamning við Ljósið til þriggja ára, frá og með árinu 2020. Þegar fyrir liggur hvernig fyrirkomulagi endurhæfingar utan sjúkrahúsa verður háttað er stefnt að því að semja um slíka þjónustu á grundvelli útboða þar sem áhersla verður lögð á að allir þjónustuveitendur sitji við sama borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert