„Við viljum gera skólann að griðastað í sítengdum heimi“

Snjallsíma á ekki að nota á skólatíma í Laugalækjarskóla.
Snjallsíma á ekki að nota á skólatíma í Laugalækjarskóla. AFP

„Við viljum gera skólann að griðastað í sítengdum heimi. Við finnum að fjölmörgum nemendum finnst gott að geta í sameiningu hvílt sig á vaktinni endalausu sem fylgir því að vera virkir á samfélagsmiðlum eða tölvuleikjasamfélögum,“ segir Jón Páll Haraldsson, skólastjóri Laugalækjarskóla, um þá ákvörðun að leyfa nemendum ekki að nota snjallsíma í skólanum.   

Í haust var tekin sú ákvörðun að gera skólann farsímalausan og gengur það vel, að sögn Jóns Páls. Frá því Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að hafa opið net í skólanum árið 2014 varð mikil breyting á símanotkun nemenda. Sú ákvörðun var tekin miðlægt í stjórnkerfi borgarinnar og stjórnendur einstakra skóla geta lítið stjórnað netinu.

„Skólinn heldur vitaskuld áfram að nýta upplýsingatækni í námi með öllum þeim möguleikum sem henni fylgja, en við ætlum að nota tæki skólans – okkur finnst það jafnræðismál.  Við erum líka að stemma stigu við ákveðnu stjórnleysi og freistnivanda sem fylgir eigin snjalltækjum og hefur truflað nám og leik nemenda.  

„Við höfðum velt þessu fyrir okkur þónokkuð lengi. Við höfðum dregið ýmsar línur og gert tímabundin átök til að reyna að stemma stigu við þessu en ákváðum í vor að nauðsynlegt væri að draga þessa línu alveg; að þeirra eigin tæki ætti ekki að nota á skóladeginum,” segir hann.

Laugalækjarskóli er skóli á unglingastigi með nemendur í 7. - …
Laugalækjarskóli er skóli á unglingastigi með nemendur í 7. - 10 bekk. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Talsverð umræða um notkun snjallsíma á skólatíma hefur verið á meðal kennara, foreldra og einnig nemenda. Ákvörðunin kom nemendum ekki á óvart, þeir bjuggust frekar við þessu, að sögn Jóns Páls. Hann segir nemendur einnig vera nokkuð meðvitaða um neikvæð áhrif snjallsímanotkunar.

„Hann greinir jákvæðan mun á skólabragnum eftir símabannið. Nemendur óska í ríkari mæli eftir því að spila á spil í frímínútum og spjalla meira saman. Ef nemandi er uppvís að notkun snjallsíma á skólatíma er það skráð. Í þriðja skiptið eru foreldrar látnir vita og mælst til þess að síminn sé skilinn eftir heima. 

Laugalækjarskóli er ekki sá fyrsti sem bannar notkun snjallsíma á skólatíma. Aðrir skólar eru meðal annars: Ölduselsskóli, Öldutúnsskóli, skólar í Fjarðabyggð og Grunnskóli Húnaþings vestra svo dæmi séu tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert