Ofbeldi karla sé vandamál karla

Paula Lethomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, flutti ávarp í Hörpu í …
Paula Lethomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, flutti ávarp í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef trú á því að vinna okkar næstu daga færi okkur nær þeim lausnum sem við þurfum til þess að útrýma kynferðislegri áreitni, innbyggðri kynjamismunun og kynferðislegu ofbeldi í samfélögum okkar,“ sagði Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, á alþjóðlegri ráðstefnu um #metoo-hreyfinguna sem haldin er í Hörpu og stendur fram á fimmtudag.

Hún benti á að þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefði í samstarfi Norðurlanda væru áskoranir enn til staðar. #metoo-hreyfingin væri til sönnunar um þær. „Konur og stúlkur í öllum sínum fjölbreytileika rufu þögnina um kynferðislega áreitni og ofbeldi sem átti sér stað í öllum lögum samfélagsins. Sögurnar sem komu upp á yfirborðið sýna að þessi tegund ofbeldis er algeng, einnig á norrænum vinnustöðum, jafnvel þótt kynferðisleg áreitni sé ólögleg í Norðurlöndunum öllum,“ sagði Lehtomäki.

Yfir 800 manns eru skráðir til leiks á ráðstefnu um …
Yfir 800 manns eru skráðir til leiks á ráðstefnu um #metoo-hreyfinguna í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eitt meginviðfangsefnanna í Norrænu samstarfi er að tryggja að konur og menn, stúlkur og drengir, gangi að jöfnum tækifærum og hafi jafnan rétt hvað varðar líkamshelgi sína. Ráðherrar á Norðurlöndum hafa skuldbundið sig til að útrýma kynbundnu ofbeldi og berjast gegn kynferðislegri áreitni, neikvæðri líkamsímynd og stereótýpískri framsetningu kvenna og karla,“ sagði hún og nefndi að Norðurlöndin gætu notað ráðherranefndina til þess að deila því sem vel væri gert, þróa nýja þekkingu og ná fram raunverulegum breytingum.

„Í því samhengi tökum við glöð við ykkar hugmyndum og reynslusögum sem geta orðið innblástur í nýrri stefnu í málaflokknum og hjálpað okkur að verða nánari og sjálfbærasta svæði í heimi,“ sagði hún.

Aðkoma karla sé hreyfingunni nauðsynleg

Lehtomäki benti einnig á að þáttur karla væri nauðsynlegur í hreyfingunni. „Ofbeldi karla gegn konum er vandamál karla. Því er mikilvægt að ná körlum að borðinu til að andæfa niðurbrjótandi karllægum normum og hefja á loft kynjajafnrétti. Íslenska Barbershop-módelið er frumlegt dæmi um það hvernig þessi árangur getur náðst. Þar að auki eru rannsóknir á kynferðislegri áreitni nauðsynlegar. Því höfum við ákveðið að fjármagna norrænt rannsóknarverkefni um kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Niðurstöðurnar verða nauðsynlegar til þess að útrýma öllum gerðum kynferðislegrar áreitni og kynbundnu ofbeldi í samfélögum okkar,“ sagði hún.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði samkomuna fyrst.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði samkomuna fyrst. mbl.is/Kristinn Magnússon

„#metoo-hefur verið og er enn mjög kraftmikil hreyfing. Hún sýnir að við getum haft áhrif og sýnir kraft einstaklinga og hvaða áhrif það getur haft að varpa fram skýrum dæmum. #metoo hefur varpað ljósi á vandamál sem er mjög algengt en oft þaggað niður. Hreyfingin hefur breytt sýn okkar á það hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi,“ sagði Lehtomäki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert