Takmarkið ávallt að bæta málsmeðferðina

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir að margt sé að gerast hvað …
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir að margt sé að gerast hvað varðar meðferð kynferðisbrotamála í kerfinu. Markmiðið sé alltaf að bæta málsmeðferðina. mbl.is/Árni Sæberg

Kynferðisbrotamál eru ekki málaflokkur þar sem niðurfellingarhlutfall breytist skyndilega milli ára. Takmarkið er samt sem áður að bæta meðferð kynferðisbrotamála og ráðast í aðgerðir tengdar þeim. Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali mbl.is. 

Efnt hefur verið til þögulla mótmæla fyrir utan skrifstofu héraðssaksóknara í dag. Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að tilefnið sé ærið, en á árunum 2002-2015 voru 65% nauðgunarmála á Íslandi felld niður af hálfu saksóknara og fóru því aldrei fyrir dóm. „Þá eru ótalin þau mál sem eru lögð niður af hálfu lögreglu, svo talan er í raun hærri. Sú staðreynd er ólíðandi,“ segir í tilkynningu. 

Tímasetningin er engin tilviljun. „Það stendur yfir stór ráðstefna þar sem er mikill fókus á málefni kvenna og okkur fannst mikilvægt að nota þennan slagkraft til að vekja athygli á þessum málum,“ segir Brynhildur Björnsdóttir, einn skipuleggjanda mótmælanna, í samtali við mbl.is og vísar hún til alþjóðlegr­ar ráðstefnu um #met­oo-hreyf­ing­una sem hófst í gær og stend­ur fram á fimmtu­dag. 

Brynhildur bendir jafnframt á að í ár er sléttur áratugur frá útgáfu bókarinnar Á mannamáli, sem fjallar um kynferðisofbeldi á Íslandi. „Okkur þykir miður að kaflinn sem fjallar um niðurfellingar á nauðgunarmálum gæti komið óbreyttur út í dag, tíu árum seinna,“ segir hún. 

„Þetta er eitt af því sem stendur hvað stærst út af í okkar lýðræðissamfélagi. Við erum svo framarlega í öllu en þessar tölur um að konur fái ekki tækifæri til að fara fyrir dóm er brotalöm í okkar réttarkerfi og jafnréttisbaráttu,“ segir Brynhildur. 

Um 65% kynferðisbrotamála felld niður

Hlutfall kynferðisbrotamála sem eru niðurfelld hefur haldist svipað síðustu fjögur ár. Í ársskýrslu ríkissaksóknara 2018 kemur fram að frá 2014 hafa árlega komið upp á bilinu 62-89 mál og 61-70% mála hafa verið niðurfelld. 89 kynferðisbrot komu inn á borð héraðssaksóknara í fyrra en aðeins hluti þeirra hefur verið afgreiddur og því er ekki hægt að álykta út frá þeim tölum. 

Kolbrún segir hlutfallið vissulega vera hátt. „En við erum alltaf að reyna að bæta okkur og það hefur verið ráðist í aðgerðir til að bæta málsmeðferð þessara mála,“ segir hún. 

Ýmislegt hefur breyst á síðustu tveimur árum að mati Kolbrúnar í kjölfar þess að tillögur um aðgerðir um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins voru samþykktar. Tillögurnar voru unnar af samráðshópi innanríkisráðherra (nú dómsmálaráðherra) í mars 2016. Hópurinn var skipaður í mars 2016 en skilaði af sér lokadrögum haustið 2017.

„Áætlunin hefur verið lögð fram og fékkst að fullu fjármögnuð og varð til þess að bæði við og lögregluembættin gátum bætt við okkur fólki í þennan málaflokk,“ segir Kolbrún. Meðal tillagna sem nú eru í framkvæmd er samræming verkferla á landsvísu og námskeið í viðtalstækni fyrir lögreglumenn, svo fátt eitt sé nefnt. 

Boðað hefur verið til þögulla mótmæla í dag fyrir utan …
Boðað hefur verið til þögulla mótmæla í dag fyrir utan skrifstofu héraðssaksóknara gegn niðurfellingu nauðgunarmála. Skipuleggjendur vilja nýta sér slagkraftinn sem fylgir alþjóðlegri ráðstefnu um #metoo sem fram fer í Hörpu þessa dagana. mbl.is

Þolendum kynnt niðurfelling munnlega

„Þá eru ýmis verkefni í gangi sem breyta kannski ekki niðurfellingarhlutfallinu en við erum farin að kynna þolendum í kynferðisbrotamálum munnlega þegar niðurfelling er niðurstaðan í stað þess að senda bara bréf,“ bendir Kolbrún á. 

Kolbrún segir kynferðisbrotamál ekki vera þannig málaflokk að niðurfellingarhlutfall lækki skyndilega milli ára. „Þetta gerist ekki þannig en það sem við getum gert er að bæta rannsóknirnar, yfirheyrslurnar og ferlin í kringum málin þannig að við getum upplýst þau eins vel og hægt er.“ 

Hún bendir hins vegar á að lögreglan og ákæruvaldið sé hlutlaust og geti því ekki sett sér markmið að ákæruhlutfall í ákveðnum málaflokki sé ákveðið hátt eða lágt. „Við erum bundin reglum og þurfum að vega og meta hvert einasta mál og erum bundin af þeim sönnunarreglum sem gilda. En við getum sett okkur það takmark að bæta rannsóknirnar og meðferð málanna þannig að þau upplýsist sem best,“ segir Kolbrún og ítrekar að margt sé að gerast í málaflokknum í kerfinu. 

„Takmarkið er alltaf að bæta meðferð þessara mála og hvort að það leiði til að það verði ákært í fleiri málum verður tíminn að leiða í ljós,“ segir hún. 

Styðja þá hugrökku 

Brynhildur segir málaflokkinn flókinn og viðkvæman en að með mótmælunum er verið að vekja athygli á hvað niðurfelling máls hefur í för með sér. „Til dæmis hvaða félagslegu áhrif það hefur ef einstaklingur hefur kært mál, sem fellt er niður, og það fylgir ekki sögunni hvað það er sem verður til þess að málið er fellt niður.“

Hún fagnar því samt sem áður að breytingar séu að eiga sér stað á kerfinu líkt og Kolbrún bendi á. „Það er ýmislegt í orðræðunni og þessari málsmeðferð sem þarf að breytast en auðvitað fögnum við öllum þeim jákvæðu breytingum sem eru að eiga sér stað.“ 

Þögul mótmæli gegn niðurfellingu nauðgunarmála fara fram sem fyrr segir fyrir utan skrifstofu héraðssaksóknara að Skúlagötu í dag. Þátttakendur munu safnast saman klukkan 17 og munu Nicole Leigh Mosty og Sunna Kristinsdóttir lesa yfirlýsingu í upphafi mótmælanna, bæði á íslensku og ensku, áður en samstaðan hefst klukkan 17.15.  

Þátttakendur þurfa ekki að hafa neitt meðferðis, það er nóg að mæta og taka sér stöðu með þeim hugrökku þolendum sem kærðu nauðgun til lögreglu en fengu aldrei tækifæri til að leita réttar síns fyrir dómi,“ segir á Facebook-síðu mótmælanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert